6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Nettó hefur opnað 2000 fermetra verslun á nýjum stað á Glerártorgi
Nettó opnaði í dag nýja og endurbætta verslun á nýjum stað á Glerártorgi, í plássi sem Rúmfatalagerinn var í áður. Verslunin er á 2000 fermetra svæði. „Ég hugsa að við förum að kalla hana drottningu matvöruverslana á Norðurlandi.“ Sagði Gunnur Líf Gunnarsdóttir mannauðs- og samskiptastjóri Samkaupa við opnun verslunarinnar.
Nettó á Akureyri frá 1989
Nettó á sér langan sögu á Akureyri. Fyrsta verslunin var opnuð við Höfðahlíð 1 árið 1989, þaðan var verslunin flutt að Óseyri árið 1992. Í nóvember árið 2000 flutti starfsemin á Glerártorg en verslunarsmiðstöðin opnaði það ár. „Þetta eru þá orðin tæp 22 ár og nú erum við að fara í gegnum fjórðu breytinguna okkar hér á torginu,“ sagði Gunnur Líf. „Við þessar breytingar erum við að stórbæta aðgengi fyrir viðskiptavina okkar.“
Afgreiðslutími lengist frá því sem var, verslunin verður opin frá 9 til 20 alla daga. Verslunin er sú fimmta í röð grænna verslana Nettó, en það þýðir að öll tæki eru keyrð á koltvíoxíð, kælar eru lokaðir sem gerir að verkum að matvæli geymast betur, „og í raun eru allar ákvarðanir teknar með græn skref í huga,“ segir Gunnur Líf.
Rík áhersla á ferskvöru
Verslunin er rúmgóð og rík áhersla lögð á ferskvöru með glæsilegu ávaxta- og grænmetistorgi. „Nettó hefur um árabil verið leiðandi í heilsusamlegum - og lífrænum vörum og sjást áherslurnar skýrt í þessari nýjustu verslun fyrirtækisins. Mikill metnaður hefur verið lagður í heilsudeildina á Glerártorgi, og verður vöruúrval framúrskarandi,“ segir Heiðar Róbert Birnuson rekstrarstjóri í Nettó.
Hún sagði að Nettó væri að takast á við aukna samkeppni á svæðinu, „en við fögnum allri samkeppni og vitum að við þurfum að vera áfram í fararbroddi og trúum því að það gerum við einmitt með verslun okkar á Glerártorgi. Við höldum áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið á, með ofurtilboðum í Samkaupaappinu, góð tilboð fyrir KEA korthafa, framúrskarandi netverslun og persónulega þjónustu.“