20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Námskeið í skapandi skrifum fyrir Ungskáld á aldrinum 16-25 ára
Laugardaginn 8. október verður námskeið í skapandi skrifum og skapandi hugsun með listamanninum og rapparanum Kött Grá Pjé. Námskeiðið er fyrir ungt fólk á aldrinum 18 - 25 ára og er hluti af verkefninu Ungskáld, sem er samvinnuverkefni Amtsbókasafnsins, Akureyrarstofu, Ungmenna-Hússins upplýsinga- og menningarmiðstöðvar í Rósenborg, Verkmenntaskólans á Akureyri, Menntaskólans á Akureyri, Framhaldsskólans á Húsavík og Menntaskólans á Tröllaskaga.
Námskeiðið fer fram í Menntaskólanum á Akureyri kl. 13-16 og er frítt en takmarkað sætaframboð og nauðsynlegt að skrá sig í netfangið ungskald@akureyri.is
Listamaðurinn og rapparinn Kött Grá Pjé eða Atli Sigþórsson eins og hann heitir fullu nafni hefur vakið athygli fyrir tónlist sína og þá sérstaklega textagerðina. Meðal laga sem Kött Grá Pjé er þekktur fyrir eru Aheybaro þar sem hann syngur ásamt Nolem og Brennum allt í flutningi Úlfs Úlfs.
Ungskáld er samkeppnisverkefni þar sem ungu fólki á aldrinum 16-25 ára á Akureyri og nágrenni, í Fjallabyggð og Norðurþingi býðst þátttaka. Hægt er að senda texta s.s. ljóð, sögur, leikrit og svo frv. á netfangið ungskald@akureyri.is og skal textinn vera á íslensku. Síðasti dagur til að skila snilldinni inn er fimmtudagurinn 10. nóvember. Veitt verða peningaverðlaun fyrir þrjá bestu textana; 1. verðlaun 50 þúsund, 2. verðlaun 30 þúsund og 3. verðlaun 20 þúsund.
Verkefnið er styrkt af Uppbyggingasjóði Norðurlands eystra.