4.desember - 11. desember - Tbl 49
Myndlistarsýning í nýju og endurbættu útibúi
Fimmtudaginn 5. desember opnar Sparisjóður Suður-Þingeyinga formlega nýtt og endurbætt útibú á Garðarsbraut 26, Húsavík þar sem sjóðurinn deilir nú húsnæði með Sjóvá.
Á sama tíma opnar í útibúinu myndlistarsýningin LIFANDI FLJÓTIÐ í samstarfi við listkonuna Rakel Hinriksdóttur. Rakel er listkona og grafískur hönnuður að mennt, og hefur teiknað, málað, skrifað og skapað frá unga aldri. Tengingin við náttúruna er alltaf skammt undan í listsköpun Rakelar og hefur hún sérstakan áhuga á tilveru mannanna í náttúrunni.
„Í fyrra gáfum við út dagatal þar sem markmiðið var að gera ungu og efnilegu listafólki sem starfar í okkar nærumhverfi hátt undir höfði og kynna þau og þeirra hæfileika. Rakel var í hópi þessa listafólks og langaði okkur að taka samstarfið lengra. Upp koma sú hugmynd að bjóða upp á myndlistarsýningu í útibúinu okkar. Rakel er frábær listkona og ekki skemmir fyrir að hún er Þingeyingur. Við erum stolt af samstarfinu og hlökkum mikið til,“ segir Örn Arnar Óskarsson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga.
Myndlistarsýningin Lifandi fljótið verður opin í útibúinu á Garðarsbraut 26 út desember mánuð.