Mikil ásókn í íbúðir á vegum Bjargs á Húsavík

Mikil ásókn í íbúðir á vegum Bjargs á Húsavík   Mynd Framsýn.is
Mikil ásókn í íbúðir á vegum Bjargs á Húsavík Mynd Framsýn.is

Óhætt er að segja að mikill áhugi sé á íbúðum sem Bjarg íbúðafélag er að byggja á Húsavík í samstarfi við Norðurþing, en þetta kemur fram á heimasíðu Framsýnar í dag. 

Framkvæmdir eru hafnar við sex íbúða raðhús að Lyngholti 42-52. Gangi allt eftir verða þær klárar vorið 2025.

Bjarg er sjálfseignarstofnun rekin án hagnaðarmarkmiða. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði, sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norænni fyrirmynd. Félagsmenn Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur hafa aðgengi að þessum íbúðum enda séu þeir fullgildir félagsmenn.

Um þessar mundir er unnið að því að úthluta íbúðunum til umsækjenda. Rúmlega 40 umsóknir bárust um þessar sex íbúðir. Eftirspurn eftir íbúðum sem þessum er greinilega gríðarleg og því þörf á frekari uppbyggingu.

Framsýn hefur ákveðið að hefja viðræður við Bjarg um að félagið haldi frekari uppbyggingu áfram á Húsavík í fullu samráði við Norðurþing enda samstarfsverkefni Bjargs og viðkomandi sveitarfélaga þar sem uppbyggingin fer fram.

 

Nýjast