Markmiðið að selja þúsund bleikar slaufur

Vilborg Jóhannsdóttir stendur í ströngu á þessum árstíma við að útbúa, selja og henga upp bleikar sl…
Vilborg Jóhannsdóttir stendur í ströngu á þessum árstíma við að útbúa, selja og henga upp bleikar slaufur. Eiginmaðurinn Úlfar Gunnarsson var til aðstoðar Myndir Aðsendar

„Markmiðið er bleikur fjörður,“ segir Vilborg Jóhannsdóttir kaupmaður í Centró og forsvarsmaður Dekurdaga á Akureyri. Sala á bleiku slaufunni stendur sem hæst um þessar mundir og gengur vel. Allur ágóði af sölunni rennur að vanda til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

Vilborg segir að 1000 slaufur séu til sölu og þegar búið að selja um 600. „Það gengur vel að selja, margir kaupa á hverju ári og þykir ómissandi hefð að skreyta við fyrirtæki sín eða heimili, lífga aðeins upp á tilveruna þegar skammdegið gengur í garð,“ segir Vilborg. „Bleiki liturinn fer svo vel með haustlitunum. Og gerir svo mikið fyrir okkur í myrkrinu.“

Nágrannabæir taka vel við sér

Miðbær Akureyrar er að verða ansi bleikur og fallegur, búið að hengja upp fjölmargar slaufur á tré og staura. „Nágrannar okkar hafa líka tekið vel við sér, þannig er mikið búið að skreyta í Ólafsfirði og á Dalvík  líka og þegar eru einar 60 slaufur komnar upp í Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit. Það að virkilega gaman að sjá hvað fólk í nágrannasveitarfélögum tekur þetta framtaki vel,“ segir Vilborg og hefur gaman af því fólki hleypur kapp í kinn og vill sína götu bleika.

Undanfarin ár hefur öll innkoma af sölu bleiku slaufunnar runnið til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis og svo verður einnig í ár. „Það er margir sem vilja fyrir alla muni styrkja það félag og vilja því allt hið besta,“ segir Vilborg og bætir við að hægt sé að panta slaufu á vef KAON, en einnig er velkomið að koma við í verslun hennar Centró í Hafnarstræti eða hafa samband við kvennaklúbb Lionshreyfingarinnar.

Dekurdagar á Akureyri standa yfir fram á sunnudag og er fjöldi viðburða á dagskrá, fyrirtæki og verslanir bjóða upp á afslætti og uppákomur. Kvöldopnun verður á Glerártorgi á morgun, fimmtudag og í miðbænum á föstudagskvöld.

Nýjast