Markmiðið að efla íbúa og byggja upp færni

Huld Hafliðadóttir verkefnastjóri (til hægri) ásamt Bridgeti Burger, Fulbright sérfræðingi í STEM ke…
Huld Hafliðadóttir verkefnastjóri (til hægri) ásamt Bridgeti Burger, Fulbright sérfræðingi í STEM kennslu en þær standa að uppbyggingu fræðslunetsins.

Í húsnæði Þekkingarnets Þingeyinga á Húsavík hefur átt sér stað fjölbreytt uppbygging undanfarna mánuði. Auk Hraðsins nýsköpunarmiðstöðvar og nýrrar FabLab smiðju hefur nú verið sett á stofn fyrsta samfélagsmiðaða STEM fræðslunet sinnar tegundar á Íslandi. STEM stendur fyrir Science, Technology, Engineering og Math, eða vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði.

STEM Húsavík er net ólíkra hagaðila eins og fræðslustofnana, skóla, nemenda, kennara, fyrirtækja, iðnaðar, safna, bókasafna, fjölskyldna og einstaklinga sem leggur áherlsu á tengingar í gegnum STEM kennslu og fræðslu í tengslum við náttúru og nærumhverfi.

Það er Huld Hafliðadóttir verkefnastjóri ásamt Bridgeti Burger, Fulbright sérfræðingi í STEM kennslu sem standa að uppbyggingu fræðslunetsins. 

„Þetta hófst á heldur ævintýralegan hátt. Bridget kom og gisti í gistiheimili sem ég átti og rak fyrir rúmu ári síðan. Þegar við förum að spjalla kemur í ljós að hún er frá litlu sjávarþorpi á Cape Cod svæðinu í Massachusettes, Bandaríkjunum, en þangað hef ég oft komið og vann m.a. verkefni með Hvalveiðisafninu í New Bedford sem kallaðist Connecting Coastal Communites, eða Að tengja strandsamfélög,“ segir Huld.

Nauðsynlegt að búa sig undir  fjórðu iðnbyltinguna

Bridget er forstöðukona Cape Cod Regional STEM Network, sem er eitt af u.þ.b. 100 samfélags-fræðslunetum í Bandaríkjunum sem eru hluti af svokölluðu starfssamfélagi námsvistkerfa.

„Þegar við hittumst í ágúst á síðasta ári kom ég einmitt að vinnu við skýrslu Þekkingarnets Þingeyinga, Byltingar og byggðaþróun, sem snýst m.a. um það hvernig dreifbýl svæði á Íslandi geta tekist á við þær breytingar sem fylgja nú í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar og snúa m.a. að atvinnuöryggi, þekkingu og tækni,“ segir Huld og bætir við að hún hafi hoggið eftir því hversu oft og mikið var kallað eftir fjölgun STEM menntaðra á Íslandi í þeim gögnum sem hún vann með, eins og skýrslum, stefnum og starfshópum íslenskra ráðuneyta.

„Fjölga átti útskrifuðum nemendum um svo og svo mörg prósent, auka átti áherslur og áhuga nemanda. Spurningin sem eftir stóð í huga mér var þó alltaf hvernig? Hvernig á að fjölga þessum nemum eða útskrifuðum nemum? Hvernig á að auka áhugann?“ segir Huld. 

Hún segir að STEM samfélagsfræðslunetin hafa verið mjög áhrifarík í Bandaríkjunum undanfarinn áratug, en með hjálp þeirra er áhugi á STEM greinum vakinn snemma og fylgt eftir með virkri þverfaglegri og samfélagslegri þátttöku ólíkra geira samfélagsins, í raun allt frá einstaklingum og fjölskyldum til stofnana og fyrirtækja. 

Þá bendir Huld á að ein af áskorununum sé að viðhalda áhuga nemenda á STEM greinum. „Nemendur eiga það ekki bara til að missa áhugann á STEM greinum í kringum miðja grunnskólagöngu, heldur er það kannski fyrst og fremst sjálfstraustið sem fer samhliða skorti á svokallaðri "hands-on" reynslu eða hagnýtri reynslu þar sem nemendur geta gert tilraunir og/eða stundað rannsóknir á raunverulegum málefnum sem þau hafa áhuga á,“ útskýrir Huld og bendir á að líta megi á verkefnið sem mikilvægt byggðaþróunarmál svo hinar dreifðari byggðir eigi samkeppnismöguleika um STEM menntað fólk í framtíðinni.

 Eykur umhverfislæsi

Huld bendir á að þó tækni- og raungreinamenntun sé mikilvæg þá sé ekki síður mikilvægt að auka almennt vísinda- og umhverfislæsi almennings. „Við lifum á upplýsingaöld og til að geta greint upplýsingar er mikilvægt að hafa tamið sér gagnrýna hugsun og lausnamiðun, þessa mjúku færni, sem nemendur öðlast gegnum STEM nám, sé það byggt á ákveðnum ferlum eins og verkfræðihugsun eða ferli rannsóknar,“ segir hún og vitnar í Bridgeti: „STEM nám er öflugt tæki til að þróa með sér hæfni – hæfni sem kallað verður eftir í auknum mæli í starfsumhverfi framtíðarinnar, hvort sem þú starfar við STEM greinar eða ekki. Hæfni eins og teymisvinna, samskiptahæfni, lausnamiðun, gagnrýnin hugsun og sköpunarkraftur. Ég held að eitt af því besta sem við getum gert er að efla fólk með því að kenna þessa dýrmætu færni gegnum STEM.“ 

 STEM fræðslunet að bandarískri fyrirmynd

„Við hófum því að skoða möguleikann á að innleiða svipað samfélagslegt fræðslunet hér á Íslandi og höfum við átt vikulega fundi gegnum zoom, kynnt hugmyndir okkar fyrir Bandaríska sendiráðinu og sótt um styrki fyrir verkefninu.

Við höfum fengið heilmikinn meðbyr og vorum við m.a. styrktar af Uppbyggingasjóði Norðurlands eystra til fyrsta áfanga verkefnisins sem var að setja á stofn pilot verkefnið STEM Húsavík.  Í því fólst stefnumótunarvinna og innviðakortlagning, auk þess sem sett var á fót ráðgefandi stjórn og unnin markmiðsyfirlýsing,“ segir Huld. 

Með tilstuðlan Fulbright Iceland var Bridget fengin sem sérfræðiráðgjafi í STEM kennslu og í sumar var verkefnið styrkt af Lóunni, nýsköpunarstyrk fyrir landsbyggðina. „Þá styrkti Bandaríska sendiráðið nú í haust hluta af öðrum áfanga verkefnisins, sem er að innleiða bestu starfsvenjur STEM Learning Ecosystems og aðlaga að okkar samfélagi hér,“ segir Huld.

Efla íbúa og byggja upp færni

jarðskjálfta

Markmiðsyfirlýsing STEM Húsavík sem unnin var af ráðgefandi stjórn í maí er að efla íbúa og byggja upp færni með því að tengja saman fjölbreyttar auðlindir, náttúru og samfélag.

„Í raun má segja að það sé aðferðafræðin sem er ný í þessu, en allt annað er til staðar. Við erum að tengja og hagnýta betur þær frábæru auðlindir sem við eigum, hvort heldur sem er í náttúru, fólki eða þekkingu. En aðferðafræðin er byggð á sannreyndri aðferð námsvistkerfisins,“ útskýrir hún og bendir á að í stefnumótunarvinnunni hafi mikilvægustu aðgerðirnar verið skilgreindar. Þær feli í sér annars vegar að auka vitneskju um STEM í samfélaginu og hinsvegar tengingar við skóla og stuðning við kennara.

Þá má geta þess að STEM Húsavík hefur opnað  heimasíðu og samfélagsmiðla, auk þess að halda  mánaðarlega hádegishittinga sem eru opnir öllum til að kynna STEM í samfélaginu. Þá eru hlaðvarpsþættir væntanlegir.  „Við munum einnig halda úti STEM tækjasafni til útláns fyrir skóla og bjóða upp á vinnustofur fyrir kennara í tengslum við þau, auk þess að bjóða upp á vinnustofur í tengslum við tækin í FabLabinu þar sem áhugi er mikill á að koma og nýta aðstöðuna, en oft skortir þekkingu eða reynslu,“ segir Huld.

STEM Húsavík stóð fyrir samfélgstengingum í tengslum við fjórðu alþjóðlegu NorthQuake jarðskjálftaráðstefnuna, sem haldin var á Húsavík nú í október, sem leið til að vekja athygli á STEM í samfélaginu. M.a. var boðið upp á fjölskyldurútuferð með leiðsögn tveggja jarðvísindamanna, þar sem sagt var frá Húsavík í jarðskjálftasögulegu ljósi. „Ferðin tókst vel og var aldursdreifing þátttakenda tæplega 70 ár. Þá buðum við upp á svokallað framaspjall eða pallborð fyrir nemendur 10. bekkjar Borgarhólsskóla og nemendur FSH, þar sem þeim gafst kostur á að spjalla við og spyrja fimm vísinda- menn og konur með afar fjölbreyttan bakgrunn um leiðir í námi og starfi sem tengjast jarðvísindum og verkfræði. Heilt yfir vorum við gríðarlega ánægð með bæði þátttökuna og útkomuna, en markmiðið með framaspjallinu var að vekja athygli og mögulega sá fræjum varðandi námsleiðir og störf í framtíðinni. Spurningar eins og „við hvað gæti jarðskjálftaverkfræðingur starfað á Húsavík?“ eru mikilvægar ungu fólk og samfélaginu öllu,“ segir Huld að lokum.

Nýjast