Markið sett hátt á Barnamenningarhátíð

Leikskólinn Klappir sýnir listaverk tengd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Sundlaug Akureyrar í ár…
Leikskólinn Klappir sýnir listaverk tengd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Sundlaug Akureyrar í ár. Myndin er fengin af vef Akureyrarbæjar.

Allur aprílmánuður verður helgaður Barnamenningarhátíð á Akureyri sem nú er haldin í fimmta sinn. Síðustu tvö ár hefur Covid-19 sett mark sitt á hátíðina og hún verið í hálfgerðu skötulíki vegna farsóttarinnar. Nú er markið hins vegar sett hátt og yfir þrjátíu viðburðir verða á dagskrá. Fjöldi skóla og einstaklinga tekur þátt í hátíðinni með spennandi listasmiðjum, tónleikum og sýningum víðsvegar um bæinn, fyrir börn og ungmenni og alla þá sem vilja gleðjast með unga fólkinu. Þetta kemur fram á heimsasíðu Akureyrarbæjar.

Viðburðirnir spanna allt litrófið, má þar til dæmis nefna raftónlistarsmiðju með Stefáni Elí, hæfileikakeppni í Hofi, karókíveislu með Karó og Kíkí, og myndlistarverkstæði Gilfélagsins og spunaspilsævintýri. Hápunktur hátíðarinnar er stórtónleikar í Menningarhúsinu Hofi með Frikka Dór og Jóni Jónssyni þar sem Akureyska hljómsveitin Brenndu Bananarnir hitar upp.

Leiðarljós hátíðarinnar eru fagmennska, fjölbreytileiki, jafnræði og gott aðgengi fyrir öll börn og ungmenni. Vettvangur hátíðarinnar er Akureyri og leitast er við að nýta spennandi og áhugverð rými þar sem börn geta skapað, notið, sýnt og túlkað. Meginreglan er að aðgengi að viðburðum sé ókeypis.

Barnamenningarhátíð á Akureyri tekur mið af markmiðum Menningarstefnu Akureyrarbæjar og aðgerðaráætlun barnvæns sveitarfélags.

Viðburðadagatal hátíðarinnar er að finna á barnamenning.is

Nýjast