Marika Alavere hlýtur Menningarverðlaun Þingeyjarsveitar

Marika Alavere handhafi Menningarverðlauna Þingeyjarsveitar 2024 og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir s…
Marika Alavere handhafi Menningarverðlauna Þingeyjarsveitar 2024 og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri. Ljósmynd fengin af vef Þingeyjarsveitar.

Menningarverðlaun Þingeyjarsveitar 2024 voru afhent á Fjölskylduhátíð Þingeyjarsveitar í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins þann 17. júní á Laugum. Verðlaunin voru fyrst veitt í nýsameinuðu sveitarfélagi árið 2023 og var fyrsti handhafi þeirra Rósa Emilía Sigurjónsdóttir. Greint er frá þessu á vef Þingeyjarsveitar.

Það var Marika Alavere sem hlaut verðlaunin að þessu sinni  „Marika er ein margra tónlistarkennara af erlendum uppruna , sem starfað hafa í samfélagi okkar í gegnum tíðina. Sum hafa stoppað stutt, en önnur ílengst eins og hún og skotið hér rótum. Marika hefur árum saman lagt sitt af mörkum til tónlistarkennslu, tónlistarflutnings og aðstoð við kórstjórn. Þannig hefur hún lagt inn mikilvæga vaxtarsprota meðal ungmenna og átt sinn þátt í menningarlífi sveitarfélagsins og víðar,“ segir m.a. í tilnefningunni.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar afhenti Mariku verðlaunin í sól og blíðu á Íþróttavellinum á Laugum og sagði við það tilefni tilnefningin væri verðskulduð og sett fram sem þakklætisvottur frá íbúum samfélagsins.

Hér að neðan má lesa kynningu Ragnheiðar Jónu á Mariku í heild sinni

Víða í sveitum landsins leynist fólk sem er snillingar í sínu fagi – að miðla tónlist til barna jafnt sem fullorðinna. Við Þingeyingar höfum löngum haft á að skipa frábæru tónlistarfólki og á seinni árum hefur menntuðu tónlistarfólki í samfélaginu fjölgað jafnt og þétt, innlendu sem erlendu. Það er mikil gæfa fyrir hvert samfélag að hafa á að skipa öflugu tónlistarfólki.

Marika útskrifaðist árið 1994, sem fiðlukennari og fiðluleikari í hljómsveit frá Heino Eller Music School of Tartu, framhaldsskóla sem sérhæfði sig tónlist. Hún gekk síðan í háskóla Estonian Music Academy í fjögur ár, eða þangað til hún flutti til Íslands, ásamt eiginmanni sínum Jaan og litlum laumufarþega sem leit dagsins ljós nokkrum mánuðum síðar. Upphafleg áætlun þeirra hjóna var að að svala ævintýraþrá sinni með því að kenna hér norður undir heimskautsbaug í tvö ár.

Þau Marika og Jaan störfuðu sem tónlistarkennararar í Stórutjarnaskóla, en frá haustinu 2010 hefur Marika verið deildarstjóri tónlistardeildarinnar. Þau hjónin voru bæði virkir þátttakendur í tónlistar- og menningarlífi Norðlendinga, en Jaan lést sem kunnugt er langt um aldur fram árið 2020. Marika hefur verið meðlimur Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá því hún flutti hingað og lék á fyrstu tónleikum með hljómsveitinni rúmum tveimur vikum eftir komuna til landsins.

Kæra Marika. Tilnefning þín er verðskulduð og sett fram sem þakklætisvottur frá íbúum samfélagsins. Árin tvö sem þú ætlaðir að vera á Íslandi eru orðin 25 og á þeim tíma hefur þú lagt mikið að mörkum til samfélagsins í okkar þágu. Þú ert verðugur fulltrúi þerra erlendu tónlistarkennara, sem flutt hafa til landsins og kynnt okkur framandi stefnur og strauma frá heimkynnum sínum. Sporin sem þið skiljið eftir ykkur í þingeysku menningarlífi eru djúp og víst er að áhrifa ykkar mun áfram gæta um ókomna tíð. Hafðu þökk fyrir allt.“ sagði Ragnheiður Jóna við tilefnið.

 


Athugasemdir

Nýjast