Lýðheilsa fyrir alla á Akureyri
Það er óhætt að segja að Akureyri sé útivistarpardís. Kjarnaskógur, Hvammur, Hamrar, Naustaborgir og Glerárdalur eru hér í bakgarðinum okkar og bjóða upp á endalausa möguleika til heilsueflingar allan ársins hring. Hlíðarfjall vakir yfir okkur og býður okkur að hafa gaman með sér hvort sem er að sumri eða vetri til. Hér er virkt ferðafélag, fjórar sundlaugar, jafnmargir strandblaksvellir, all nokkrir frisbígolfvellir sem og hefðbundinn golfvöllur. Hafi fólk löngun til að vera virkt er listinn svo gott sem ótæmandi. En hvar liggur grunnurinn að heilsueflingu? Sum eru þeirrar skoðunar að góð leið til að byrja heilsueflingu sé að ganga í og úr vinnu eða skóla. En hafa ber í huga að hér er oft snjóþungt stóran hluta af ári. Við þurfum því að vera dugleg að hugsa um Akureyri út frá vetrinum og ganga úr skugga um að hér líði okkur vel allt árið um kring, líka í mesta snjóþunganum. Við þurfum að gæta vel að því að göngustígar séu greiðir þegar við ferðumst um bæinn okkar.
Leiðir til lýðheilsu
Hér er verið að gera góða hjóla-, hlaupa- og göngustíga sem liggja í gegnum Akureyri og munu tengja okkur við nágranna okkar í norðri, suðri og austri. Einnig eru frábærar gönguleiðir og hestastígar í nágrenni Akureyrar og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Akureyrarbær er með metnaðarfullt plan um stíga á aðalskipulagi fram til ársins 2030, og teljum við í Framsókn á Akureyri mikilvægt að því skipulagi sé fylgt eftir. Við þurfum að halda áfram að styðja við útivist bæði fyrir íbúa og þá sem sækja okkur heim. Við þurfum að standa vörð um náttúruperlur okkar, efla þær og styrkja. Á þetta viljum við í Framsókn leggja ríka áherslu á; að við eflum lýðheilsu bæjarbúa og að við gerum Akureyrarbæ aðlaðandi fyrir íþróttatengda ferðamennsku sem verður kortlögð í samstarfi við íþróttahreyfinguna. Við búum í útivistarparadís með alla möguleika á að verða einnig lýðheilsuparadís, Framsókn vill gera það sem þarf til.
Er Akureyri heilsueflandi samfélag?
Árið 2015 undirrituðu Akureyrarbær og Embætti Landlæknis samstarfssamning um þátttöku Akureyrarbæjar í verkefninu Heilsueflandi samfélag. Nokkrir leik- og grunnskólar og báðir framhaldsskólarnir okkar eru þátttakendur í þessu verkefni. Haustið 2021 var svo stefnt að því að gera félagsmiðstöðvar eldri borgara heilsueflandi. Við í Framsókn teljum einnig mikilvægt að boðið verði uppá lýðheilsustyrk til eldri borgara og viljum innleiða slíkan styrk, enda eru Heilsueflandi og Aldursvæn samfélög samofin. Meginmarkmið Heilsueflandi samfélaga er að styðja samfélagið í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum og vellíðan allra íbúa. Mikilvægt er að sveitarfélög sem taka þátt í þessu verkefni hafi þetta markmið í huga þegar kemur að stefnumótun og aðgerðum á öllum stjórnsýslusviðum. Unnið er með áhrifaþætti heilbrigðis sem finna má í félags-, efnahags- og menningarlegu umhverfi okkar og þar spila víðtækar forvarnir mikilvægan þátt. Leitast er við að skapa sem bestar aðstæður í mannlegu og náttúrulegu umhverfi okkar fyrir líf, leik og starf íbúa á öllum æviskeiðum.
Thea Rut Jónsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur, skipar 5. sæti á lista Framsóknar á Akureyri.
Alfa Jóhannsdóttir, forvarnarfulltrúi, skipar 3. sæti á lista Framsóknar á Akureyri.