Lokun sundlaugar í Lundi mælist illa fyrir hjá íbúum

Byggðarráð Norðurþings tók nýverið undir bókun skipulags- og framkvæmdaráðs um að ekki sé forsvaranlegt að ráðast í frekara viðhald á Sundlauginni í Lundi að svo stöddu.

Ráðið fól sveitarstjóra að fá uppfærða kostnaðaráætlun vegna byggingar á nýrri sundlaug í Lundi. Kostnaðaráætlun þarf að liggja fyrir þegar ákvörðun er tekin um framtíðaruppbyggingu og viðhald íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu.

 Íbúar ekki sáttirBrynjar og frú

Íbúar í Öxarfirði og Kelduhverfi eru ekki á eitt sáttir með þessa ákvörðun en Brynjar Þór Vigfússon sem situr í hverfisráði Öxarfjarðar segir í samtali við Vikublaðið að honum finnist halla á íbúa dreifðari byggða austan Húsavíkur þegar kemur að úthlutuðu framkvæmdafé.

„Ég held að það hafi verið búið að ákveða það síðasta haust að ekkert yrði af viðhaldi á sundlauginni í Lundi en í raun ekkert gefið út fyrr en bara mjög seint núna á vordögum. Við vorum alltaf að reyna fá ákveðin svör en þau bárust ekki fyrr en þessi ákvörðun var kynnt,“ segir Brynjar ósáttur og bætir við að þetta hafi í raun legið fyrir í ein átta ár.

„Það þarf að fara í raunverulegt viðhald á sundlauginni sem er þá búið að ákveða núna að verði ekki farið í. Við getum svo farið 10-12 ár aftur í tímann þar sem hefði þurft að gera eitthvað,“ bætir hann við.

Mannvirkið komið á tíma

Í skriflegu svari til blaðsins bendir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings á að sundlaugin í Lundi hafi verið opin í fyrrasumar og fyrir skólasund í Öxarfjarðarskóla í sl. haust og í vor.KAtrín

„Gerðar hafa verið athugasemdir við ástand laugar og búnaðar þannig að ákvörðun var tekin um að hafa sundlaugina ekki opna í sumar. Það er ekki hægt að skrifa allt á vanrækslu viðhalds því mannvirkið er að klára sína lífdaga eins og margar íslenskar sundlaugar af sömu gerð byggðar af metnaði á sínum tíma. Erfitt er að fá varahluti í hreinsikerfið. Það, lagnakerfið og laugarkarið er allt komið þannig í tíma að nauðsynlegt er að huga að heildstæðri endurnýjun,“ útskýrir Katrín.

Þá bendir Katrín jafnframt á að kostnaðaráætlun þurfi að liggja fyrir þegar ákvörðun verði tekin um framtíðaruppbyggingu og viðhald íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu. „Þannig að málið er í vinnslu. Unnið er að uppfærslu kostnaðaráætlunar fyrir nýtt mannvirki, vonandi liggur það fyrir við gerð fjárhagsáætlunar í haust svo hægt sé að taka ákvörðun í málinu.“

 Ekki bjartsýnn

Brynjar segir að lengi hafi verið kallað eftir því að fá fjármagn í viðhald á sundlauginni en það hafi alltaf setið á hakanum. „Það hefur aldrei neitt verið gert og hvert sumar einhvern veginn látið líða. Svo er ákveðið á haustin að það verði gert eitthvað fyrir næsta sumar. Svo kemur alltaf þetta næsta sumar og þá kemur á daginn að ekkert hafi verið gert,“ segir Brynjar og er augljóslega langþreyttur á ástandinu.

„Við vitum að það er líka dýrt að reka sundlaug á Raufarhöfn  og á Húsavík. Þetta er alls staðar dýrt enda á að líta á þennan rekstur sem þjónustu við íbúa en ekki gróðastarfsemi,“ segir Brynjar sem finnst að litið sé framhjá sér og sveitungum sínum.

„Þá finnst manni að við séum annars flokks hér í Öxarfirði og Kelduhverfi. Við höfum bent á það í hverfisráði að þetta sé mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna. Ferðamenn sem gista í Ásbyrgi gera margir ráð fyrir því að komast í sundlaugina. Þá segir Norðurþing að í rauninni eigi sveitarfélagið ekki að sjá um afþreyingu og þjónustu við ferðamenn. En við þurfum ekki að leita lengra en til Húsavíkur til að sjá dæmi um að það sé gert.“

Þá heldur Brynjar því fram að sambærileg verkefni fái miklu fremur fjárveitingar á Húsavík en annars staðar í sveitarfélaginu og finnst hreinlega á íbúa utan Húsavíkur hallað. Þessu hafnar Katrín sveitarstjóri en bendir á að eðlilegt sé að fleiri íbúum fylgi hærri kostnaður.

Þegar rætt er um að fjárveitinga til þessa hluta sveitarfélagsins (Öxarfjarðar) sé ábótavant og að verkefni á Húsavík fái fleiri og hærri úthlutanir við sambærileg verkefni er best að skoða rauntölur,“ segir Katrín og vísar í bókhald sveitarfélagsins um fjármagn til viðhalds og framkvæmda við skóla og íþróttamannvirki árið 2023 og það sem af er ári 2024.

Tölur í lundi      

„Það ætti að vera mjög eðlilegt að hærri kostnaður falli til þar sem fjöldi íbúa er meiri. Sjálf tel ég betra að horfa ekki á einstök svæði heldur sveitarfélagið sem eina heild og að fjármunum sé vel varið til góðra verka þar sem þeirra er þörf hverju sinni,“ segir Katrín og bendir á að skammt sé síðan gerður var styrktarsamningur við Hestamannafélagið Feyki vegna námskeiðs fyrir börn og unglinga.

„Með því er fagnað framtaki hestamannafélagsins um að efla æskulýðsstarf tengt hestum í Kelduhverfi og Öxarfirði. Í haust var gerður samstarfssamningur við Íþróttafélagið Þingeying en markmið félagsins eru að halda úti íþróttastarfi fyrir ungmenni og íbúa á starfssvæði félagsins í Kelduhverfi, Öxarfirði og Kópaskeri. Norðurþing lagði Íþróttafélaginu Þingeyingi til fjárframlag við að breyta gamla salnum/litla salnum í íþróttahúsinu í Lundi í góða líkamsræktaraðstöðu fyrir iðkendur félagsins. Þá var í vetur gengið frá nýráðningu í 50% stöðu umsjónarmanns við íþróttahúsnæðin á Kópaskeri og í Lundi þannig að þjónusta við svæðið hefur verið aukin,“ segir Katrín að lokum.

Öryggismál á skólalóðum

Í vor hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum öryggismál skólalóðar í Lundi. Í grunn- og leikskólanum  í Lundi  í Öxarfirði eru samanlagt 60 börn en skólabílstjórar hafa lýst því að þeir séu smeykir um að aka um skólalóðina, enda sé hún komin að þolmörkum.

Katrín segir að í fjölmiðlaumfjöllun hafi verið vitnað í erindi sem átti að  hafa verið sent sveitarfélaginu af foreldrum og starfsfólki árið 2021, kröfur um endurbætur. „Slíkt erindi var sent á milli manna í skólasamfélagi Öxarfjarðarskóla á þeim tíma en barst aldrei sveitarfélaginu og var því eðlilega ekki tekið til formlegrar afgreiðslu eða eftirfylgni í stjórnsýslunni. Í framhaldi umfjöllunarinnar í vor hafa skólastjórnendur og skipulags- og umhverfissvið tekið saman atriði sem stefnt er á að laga fyrir skólabyrjun í haust. Það er t.d. að taka niður gróður meðfram afleggjara og útbúa kurlstíg frá skóla að íþróttahúsi, leggja nýtt slitlag á heimreið, tryggja að aðföng til mötuneytis komi ekki á sama tíma og börn eru á skólalóð, beina starfsfólki á bílastæðin austan við eins lengi og þau duga og setja snjógildru á viðbyggingu við leikskóla,“ útskýrir Katrín.

Það er mikil umferð við Öxarfjarðarskóla á morgnana og í eftirmiðdaginn þegar foreldrar koma með og sækja börnin á leikskóla enda um dreifbýli að ræða og mörg börn á leikskólaaldri. Katrín segir mikilvægt að hanna leikskólalóðina á næstu mánuðum og í framhaldinu áfangaskipta framkvæmdum þannig að helstu öryggisþættir fái framgang sem fyrst.

„Sömu sögu er að segja um öryggi á lóð Borgarhólsskóla, sérstaklega eftir að lausu kennslustofurnar, Skýið, voru settar upp sl. haust. Þar voru farnar leiðir til að lágmarka hættu með því að skilyrða akstur eftir að starfi lýkur í Skýinu, sorpið er sótt eftir skólatíma og einnig takmarkaðar ferðir í kringum mötuneyti. Öryggi barnanna, hvar sem er í sveitarfélaginu, er alltaf forgangsmál og reynt að bregðast við þeim ábendingum sem koma eins fljótt og auðið er með úrbótum,“ segir Katrín að lokum.

 


Athugasemdir

Nýjast