20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Ljúft er að láta sig dreyma
Um þessar mundir er bæjarstjórn Akureyrar að kynna skipulagslýsingu á svæði sem kennt er við Tónatröð. Með því er ætlunin að þar verði fjölbýlishús í stað einbýlishúsa sem gert var ráð fyrir í eldra skipulagi. Fyrir nokkrum misserum voru uppi miklar deilur um fyrstu hugmyndir að hærri fjölbýlishúsum þarna. Nú hefur bæjarstjórn opinberað nýjar útfærslur með lægri húsum og hvetur bæjarbúa til að kynna sér þær og koma með ábendingar og hugmyndir að breytingum ef þeim þykir ástæða til. Síðan verði þær skoðaðar og metnar í bæjarkerfinu og í framhaldi af því teknar lokaákvarðanir um skipulag á þessum bletti.
Þegar þarna var komið svelgdist undirrituðum svolítið á og hugsaði til þess þegar sama bæjarstjórn kynnti verulegar breytingar á skipulagi miðbæjarins og óskaði eftir athugasemdum við þær frá bæjarbúum. Ekki stóð upp á íbúa bæjarins enda komu fram fjölmargar athugasemdir, smáar og stórar. Til að mynda lagði undirritaður fram níu síðna, vel rökstudda greinargerð þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við ýmislegt sem bæjarstjórn stefndi að því að breyta frá því sem samþykkt hafði verið samhljóða árið 2014. Aðrir bentu á fjölmargt sem þeim lá á hjarta í þessu sambandi. Því miður hafði bæjarstjórn ekki einu sinni þrek til að leiðrétta misskilning eða vafasamar fullyrðingar sem fram komu í athugasemdum hvað þá að tjá sig um flóknari álitaefni svo sem skipan vega og gangbrauta og vistvæna umferð í miðbænum. Ekki vantaði þó að bæjarfulltrúar töluðu um þessar mundir fjálglega um nauðsyn þess að hafa gott og náið samráð við bæjarbúa um svona þýðingarmikið málefni og látið eins og álit þeirra skipti einhverju máli. Skemmst er frá því að segja að ekkert var gert með athugasemdir sem komu frá bæjarbúum hvort heldur þær voru vel ígrundaðar eða ekki. Hvorki bæjarstjórn í heild né einstakir bæjarfulltrúar svöruðu einni einustu fyrirspurn opinberlega um málið, útskýrðu heldur ekki tillögur sínar eða tóku þátt í opinberri umræðu um þær. Algjör þögn af þeirra hálfu. Þess í stað fékk bæjarstjórn verkfræðistofu úti í bæ til að tipla í greinargerð á nokkrum atriðum málsins og gerði það yfirklór að sínu með formlegri samþykkt í bæjarstjórn. Búið.
Nú hefur undirritaður síður en svo nokkuð á móti þessum nýjustu tillögum við Tónatröð en tek eftir að einhverjir hafa áhyggjur af þeim og vilja leggja orð í belg, spyrja og gera athugasemdir. Allt í góðu með það. En við það ágæta fólk vil ég segja þetta: Gerið ykkur ekki of miklar vonir um að á ykkur verði hlustað því fyrir liggur sú dapurlega reynsla að þetta svonefnda samráð er í besta falli bara grín. Satt að segja bendir allt til þess að bæjarfulltrúar muni að þessu aðlögunarferli loknu, loka sig af, ástunda hrossakaup innbyrðis og taka svo einhliða ákvarðanir án þess að taka tillit til ábendinga utan frá eins og gert var varðandi miðbæinn. Því er full ástæða til að vara fólk við að eyða miklum tíma, fé og fyrirhöfn í að leggja fram vandaðar athugasemdir við ríkjandi aðstæður. Hins vegar vekur athygli að flótti er brostinn á flesta bæjarfulltrúa og verða margir þeirra ekki í framboði næsta vor. Í því gætu falist áður óþekktir möguleikar þegar nýtt fólk kemur til leiks og treystir sér vonandi til að hlusta á og jafnvel ræða við bæjarbúa á jafnréttisgrundvelli. Þá aukast lýkur á að mörg málefni sem horfa til framfara í bænum okkar fái vængi og farsælan endi og komist jafnvel til framkvæmda sem mundi teljast til nokkurra tíðinda hér í bæ. Þegar allt er skoðað er bæði ljúft og gagnlegt að láta sig dreyma um betri tíð í þessum efnum enda mörg framfaramál átt rót sína að rekja til drauma sem svo rættust með samstilltu átaki.
Ragnar Sverrisson
kaupmaður