Líforkugarðar ehf stefna á að reisa líforkuver á iðnaðarlóð við Dysnes
Skrifað hefur verið undir viljayfirlýsingu þess efnis að félagið Líforkugarðar ehf fái tæplega 6.700 fermetra iðnaðarlóð við Dysnes. Fyrirhuguð starfsemi á lóðinni er móttaka og vinnsla dýraleifa, þ.e. fyrsti fasi líforkugarða. Félagið er í eigu allra 10 sveitarfélaganna sem standa að SSNE.
Kristín Helga Schöith verkefnastjóri hjá SSNE segir að líforkuverkið sem til stendur að reisa á Dysnesi geti leyst þann vanda sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir varðandi förgun dýraleifa úr áhættuflokki 1, en hér á landi skorti inniviði til að takast á löglegan og ábyrgan hátt á við förgun þessa úrgangs. Einungs sé fyrir hendi ein brennsla hér á landi sem hafi starfsleyfi til að brenna dýraleifar. Stærstur hluti dýraleifa hefur verið urðaður, ýmist heima við bæi eða á urðunarstöðum sem hafa starfsleyfi. Slík urðun dýraleifa hefur þó verið ólögleg um árabil og fallið hefur EFTA dómur á Ísland vegna þess hvernig staðið er að þessum málum hér á landi.
Kristín Helga fór ásamt fleirum í kynnisferð til Finnlands og Noregs þar sem hópurinn kynnti sér hvernig söfnun, móttöku og vinnslu dýrahræja er háttað í þeim löndum. „Sú vinnsla sem lagt er til að verði reist á Dysnesi er algjörlega sambærileg þeim sem skoðaðar voru í Finnlandi og Noregi, einungis smærri. Vinnslan sem teiknuð hefur verið upp á Dysnesi gæti samt sem áður annað öllum dýrahræjum á landinu, þar með talið álagstoppum í sláturtíð og ef upp koma smitsjúkdómar sem krefjast niðurskurðar búfjár eða eldisfisks. Þrátt fyrir að hér á Íslandi sé aðeins um lítið magn efnis að ræða er nauðsynlegt að til séu viðeigandi úrræði til að vinna rétt úr efninu. Það er bæði vegna þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum, og ekki síst til að tryggja megi heilbrigði dýra og manna,“ segir Kristín Helga.
Líforkuverið sjálft er hvorki stórt né flókið, en um verður að ræða ver sem getur tekið við allt að 10 þúsund tonnum af dýraleifum á ári. Hún segir þó að raunhæft magn verði í kringum um 3 þúsund tonn.
Um verði að ræða hillulausn með þekktri tækni sem uppfyllir Evrópuskilmála þegar kemur að smitvörnum og öryggi, en efnið er malað niður í ákveðna kornastærð, smitefni óvirkjuð með þrýstisæfingu, fitan skilin frá og afurðirnar eru á endanum fita og kjötmjöl. Öll vinnsla fer fram innandyra, þ.e. hræjum er keyrt inn til vinnslu en ekki geymd á hlaði eða slíkt. Þannig fylgir engin lyktarmengun starfseminni að sögn Kristínar Helgu.
„Við sjáum ákveðin tækifæri í þessu líforkuveri, það felur í sér lausn á vanda sem við stöndum frammi fyrir og verðum að leysa. Einnig er möguleiki á að vinna hræin áfram á þann hátt að þau verði áfram hluti af hringrásinni og að búin verði til úr þeim ákveðin verðmæti,“ segir Kristín Helga, en afurðir vinnslunnar verða í formi orkugjafa, þ.e. kjötmjöls og fitu sem vinna má áfram í lífdísil.