Leikskólarnir og lífsgæðin
Það er fátt sem skiptir jafn miklu máli fyrir lífsgæði ungra barnafjölskyldna en metnaðarfull stefna sveitarfélaga í málefnum leikskóla og dagvistunar. Að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla svo foreldrar komist aftur út á vinnumarkaðinn byggir undir öryggi þeirra og sjálfstæði og eykur lífsgæðin. Lág leikskólagjöld eykur ráðstöfunartekjur foreldra og þar með lífsgæðin. Framsækið og vandað starf í góðu húsnæði eykur lífsgleði og lífsgæði barna og eflir þau til framtíðar. Ef við ætlum að auka lífsgæði foreldra og ungra barna þá byrjum við á leikskólunum.
Kostnaðarþátttaka foreldra
Á síðastliðnum áratug hefur kostnaðarþátttaka foreldra farið úr því að vera 23% af kostnaðinum og niður í 15%. Þetta skiptir máli ekki bara fyrir efnaminni fjölskyldur heldur allt barnafólk sem er að koma undir sig fótunum. Við viljum leita leiða til að lækka þetta hlutfall enn frekar, einkum og sér í lagi fyrir efnaminni fjölskyldur. Gjaldfrír leikskóli á að vera markmið til framtíðar. Við gerum okkur hins vegar líka grein fyrir því að leikskólarnir hafa fengið ærin verkefni á síðustu árum. Við verðum fyrst að klára að brúa bilið og bæta starfsaðstæður barna og starfsfólks. Við verðum að finna leiðir til að sinna þeim verkefnum vel sem við höfum þegar tekið okkur fyrir hendur.
Á að lögbinda leikskólana?
Við gerum miklar kröfur til leikskólanna enda hefur faglegt starf þeirra blómstrað. Starfsfólk leikskólanna býr yfir mikilli þekkingu, reynslu og menntun. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og þar fer fram mikilvægur undirbúningur fyrir það sem tekur við. Framsókn vill í samvinnu við skólasamfélagið skoða kosti og galla þess að gera elsta árganginn í leikskólum að skyldubundnu skólastigi. Sérstaklega nú þegar þróunin er sú að það fækkar í árgöngum og pláss skapast í grunnskólum bæjarins. Þetta pláss getum við t.d. nýtt til að taka á móti elstu börnunum í leikskólunum og skapað þannig forskólastig sem undirbýr öll börn jafnt áður en eiginlegt grunnskólanám hefst. Slíkt stig, ef við horfum til framtíðar, yrði að sjálfsögðu gjaldfrjálst. Um leið rýmkar plássið hjá leikskólunum og ávinningurinn því talsverður fyrir bæinn.
Leikskólarnir og farsæld barna
Öll börn eiga að fá að njóta sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins. Ásmundur Einar Daðason, skóla og barnamálaráðherra, hefur unnið mikið og gott starf fyrir farsæld barna og fjölskyldna. Á síðasta ári samþykkti Alþingi frumvarp til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þetta framfaraskref miðar að snemmtækum stuðningi við börn til að tryggja aukna samvinnu og samfellu í þjónustu við börn. Lögin taka að sjálfsögðu til þeirrar þjónustu sem veitt er í leikskólum rétt eins og öðrum skólastigum. Það er gríðarlega þýðingarmikið að þeim breytingum sem lögin fela í sér verði komið til framkvæmda sem fyrst og innleiðingu lokið.
Það er nefnilega staðreynd, hvernig sem á það er litið, að lífsgæðin byrja á góðum leikskólum.
Gunnar Már Gunnarsson er fulltrúi Framsóknar í fræðslu- og lýðheilsuráði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum