Lausa skrúfan er vitundarvakning um geðheilbrigði og geðrækt
![Febrúar er mánuður Lausu skrúfunnar og markar 15. febrúar næstkomandi upphaf söluátaks verkefnisins …](/static/news/lg/lausa-skrufan-kassar-1.jpg)
„Verkefnið er fyrst og fremst vitundavakning um geðheilbrigði og geðrækt, sem og fjáröflun,“ segir Sonja Rún Sigríðardóttir verkefnastjóri Unghuga og kynningamála hjá Grófinni geðrækt, en nú um komandi helgi verður hópur þátttakenda úr Grófinni á Glerártorgi og kynna Lausu skrúfuna.
Febrúar er mánuður Lausu skrúfunnar og markar 15. febrúar næstkomandi upphaf söluátaks verkefnisins sem heldur áfram út febrúar. Hægt verður að kaupa skrúfuna á staðnum á Glerártorgi en einnig í Byko, Ferro Zink og Pennanum á Akureyri. Eins eru ýmsar styrktarleiðir sem finna má á vefsíðunni www.lausaskrufan.is þar sem hægt er að leggja málefninu lið.
Fyrst um sinn munu styrkir renna til Grófarinnar til að aðstoða við að standa undir auknum rekstrarkostnaði og halda starfseminni gangandi. Framtíðarsýnin er þó svo að hægt verði að leggja öðrum valdeflandi verkefnum lið sem upp kunna að koma síðar norðan heiða.
Mikilvægt málefni
Upphaflega var Lausa skrúfan kynnt á Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum, 10. október síðast liðinn, og var almennt tekið vel í verkefnið. „Fólk var forvitið og höfðu flestir sínar eigin sögur að segja tengdar eigin geðheilsu um tíðina. Ljóst er að þetta er mikilvægt málefni sem halda þarf á lofti allan ársins hring, en ákveðið var að febrúar yrði mánuður Lausu skrúfunnar, bæði vegna persónulegrar reynslu Sigurðar Gísla, hugmyndasmiðsins á bak við verkefnið, en ekki síður vegna þess að þetta er kaldur og dimmur mánuður þar sem nauðsynlegt er að huga að geðheilsunni,“ segir Sonja Rún.
Huga þarf vel að andlegri heilsu
Hún segir Lausu skrúfuna vera vitundarvakningu um mikilvægi þess að hugsa vel um andlegu heilsu og berjast gegn sínum innri fordómum ekki síður en ytri. Þá sé hún vegvísir fyrir fólk norðan heiða - jafnt fyrir þau sem eru að leita sér hjálpar við andlegri vanlíðan og þau sem vilja stunda geðrækt meðal jafningja. Auk þess að vera fjáröflun fyrir Grófina Geðrækt, sem er eina opna geðræktin á Norðurlandi.
Aðsókn að Grófinni hefur vaxið um árin en fólk sem tekur þátt kemur víða að, frá Akureyri, Eyjafjarðarsvæðinu öllu og héðan og þaðan af Norðurlandi en alls eru heimsóknir um 5500 á ári. Virkir þátttakendur eru á bilinu 80 til 140 manns, eftir árstíma. Grófin hefur verið starfandi frá árinu 2013. Mygla kom upp í húsakynnum Grófarinnar og var starfsemi flutt annað. Greiða þarf mun hærri leigu fyrir nýja húsnæði, eða 10 milljónum meira á ári en var í fyrra húsnæði. Það er því ljóst að róðurinn verður þungur fyrir Grófina næstu mánuði en unnið verður að því að komast í ódýrara húsnæði eftir eitt til tvö ár.
Áhugafólk um geðheilsu ætti að leggja leið sína á Glerártorg um helgina en þá verður verkefninu Lausu skrúfunni ýtt út vör. Grófarfélagar verða með opinn bás frá kl. 12 til 17 á laugardag og sunnudag