Sjúkraþjálfun Akureyrar flutti í fyrra í Sunnuhlíð og fagnar 10 ára afmæli í ár

Eigendurnir taka við lyklunum að nýju aðstöðunni á liðnu ári. Frá vinstri: Olga Unnarsdóttir, Kristí…
Eigendurnir taka við lyklunum að nýju aðstöðunni á liðnu ári. Frá vinstri: Olga Unnarsdóttir, Kristín Rós Óladóttir, Þóra Guðný Baldursdóttir og Eydís Valgarðsdóttir

Sjúkraþjálfun Akureyrar fagnar í ár 10 ára afmæli sínu, var stofnuð árið 2015 af þeim Eydísi Valgarðsdóttur, Þóru Guðnýju Baldursdóttur, Guðmundi Daða Kristjánssyni og Tinnu Stefánsdóttur. Stofan var þá staðsett að Tryggvabraut 22 og samnýtti að hluta til aðstöðu með Heilsuþjálfun Davíðs Kristinssonar sem einnig aðstoðaði við stofnun stofunnar. Þann 1.júlí á liðnu ári fékk Sjúkraþjálfun Akureyrar afhenta glænýja og glæsilega aðstöðu í kjallara Sunnuhlíðar í Glerárhverfi á Akureyri, þar sem Heilbrigðisstofnun Norðurlands er einnig til húsa. Húsnæðið sem er í eigu Heima (áður Reginn fasteignafélag) var teiknað af Fanneyju Hauksdóttur arkitekt með þarfir starfseminnar í huga og þar er nú rekin öflug sjúkraþjálfunarstöð.

„Áherslur stöðvarinnar hafa frá upphafi verið að bjóða upp á sem heildrænasta endurhæfingu og var hópþjálfun stór partur af meðferðarúrræðum ásamt einstaklingsmiðaðri sjúkraþjálfun og fræðslu,“ segir Eydís Valgarðsdóttir einn eigenda. Á þeim 10 árum sem liðin eru frá því stöðin var stofnuð hefur mikið vatn runnið til sjávar og breytingar hafa átt sér stað bæði á eignarhaldi og starfseminni.

Spennandi kostur að flytja starfsemina

„Fyrir rúmum tveimur árum fréttum við af því að fasteignafélagið Heimar vildi byggja upp heilsutengda starfsemi í Sunnuhlíð. Verið var að undirbúa flutning Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri í Sunnuhlíð og því var það virkilega spennandi kostur fyrir okkur á margan hátt að flytja starfsemina nær heilsugæslustöðinni og í nýtt húsnæði. Samningaviðræður fóru fljótlega í gang við fulltrúa Heima sem enduðu með því að samningar tókust og framkvæmdir fóru í gang. Guðmundur Daði og Tinna ákváðu að fara út úr fyrirtækinu en í staðinn komu inn sjúkraþjálfararnir Kristín Rós Óladóttir og Olga Unnarsdóttir og eru þær eigendur í dag ásamt Eydísi og Þóru Guðnýju.

Eydís segir að flutningur úr Tryggvabraut í Sunnuhlíð hafi tekið á. „En það var mikið lán fyrir okkur að fá reynda sjúkraþjálfara í lið með okkur,“ bætir hún við. Þuríður S. Árnadóttir sem rekið hafði sjúkraþjálfunarstofuna Stíg í World Class við Skólastíg, Marjolijn van Dijk sem starfað hafði á Bjargi og Ragnheiður Sveinsdóttir sem líka starfar hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands bættust í þann góða hóp sem fyrir var. Einnig starfar þar Helga Sif Pétursdóttir iðjuþjálfi sem hefur verið að byggja upp sína starfsemi og er m.a. í samstarfi við VIRK starfsendurhæfingu og Jóhanna Másdóttir ritari og aðstoðarkona með meiru.

Vantar fleiri sjúkraþjálfara og fleiri klukkustundir í sólarhringinn

„Aðstaðan í Sunnuhlíð hefur gefið nýja og spennandi möguleika. Við viljum gjarnan að fólk upplifi frið og ró þegar það kemur til okkar og að stofan taki svolítið utan um fólkið okkar. Það er allt of mikil streita í þjóðfélaginu og heimsfréttirnar eru ekki beinlínis til að róa taugarnar. Vandi fólks í dag er mjög oft á einhvern hátt streitutengdur. Við teljum að því markmiði hafi verið ágætlega náð á nýju stofunni okkar. Það má segja að eftir að við fundum taktinn í Sunnuhlíð þá hafi starfsemin farið á flug sem sér ekki fyrir endann á. Einu takmarkanirnar eru að okkur vantar fleiri sjúkraþjálfara í hópinn og helst fleiri klukkustundir í sólarhringinn því það er svo margt sem okkur langar til að gera.

Í Sunnuhlíð eru 9 meðferðarherbergi, lítill æfingasalur og rúmgóður hópæfingasalur. Við tökum á móti fólki með margvísleg stoðkerfisvandamál en líka fólki sem glímir við vandamál frá taugakerfi, kulnun, vefjagigt, síþreytu o.fl. Margir okkar skjólstæðinga eru á endurhæfingarlífeyri vegna langvarandi veikinda. Því leggjum við mikið upp úr því að veita fólki viðeigandi og fjölbreytt endurhæfingarúrræði með því að bjóða upp á bæði einstaklingsmiðaða endurhæfingu en líka hópþjálfun og fræðslu

Að fólk fái tíma þó það sé á biðlista

Um þessar mundir er unnið að gerð gæðastaðla fyrir stofuna og að samræma vinnuaðferðir sjúkraþjálfara til að tryggja hágæða þjónustu. „Því miður er allt of langur biðlisti hjá okkur en við sjáum fram á fjölgun sjúkraþjálfara í okkar röðum seinni part sumars,“ segir Eydís. „Okkur langar að fara af stað með einhvers konar stoðkerfismóttöku þannig að þó fólk sé á biðlista þá fái það samt tíma hjá sjúkraþjálfara í skoðun, mat og ráðleggingar meðan það bíður eftir að komast að í meiri meðferð. Hóptímarnir okkar hafa verið frábærlega vel sóttir á undanförnum vikum og greinileg vitundarvakning hjá fólki gagnvart gagnsemi þess að nýta sér þessi úrræði til viðbótar við einstaklingsmeðferðina eða í framhaldi af henni. Verkefnin eru því næg hjá sjúkraþjálfurum í Sjúkraþjálfun Akureyrar en auðvitað er það alltaf markmið okkar að útskrifa fólk með góðum árangri og gagnlegum verkfærum til framtíðar.“

Það er tvímælalaust mikil og góð viðbót við starfsemina að geta boðið upp á fjölbreytt meðferðarúrræði. Sem dæmi um það þá býður Sjúkraþjálfun Akureyrar upp á eftirfarandi:

- Slitgigtarskóla (8 vikna prógram) og framhaldshóp.

- Bakheilsuhóp

- Vefjagigtarfræðslu á Zoom

- ME/CFS, Long Covid stuðningshóp

- Styrktar- og jafnvægisþjálfun

- Sundleikfimi

- Hreyfiflæði

- Sjálfsmeðferð með boltum og rúllum (bandvefsnudd)

- Jóga og öndun.

Sumir þessara hópa eru lokaðir hópar á námskeiðsformi en aðrir eru opnir og fólk í endurhæfingu getur sótt og skráð sig í jafnóðum. 

 Starfsfólk stofunnar: Frá vinstri Marjolijn van Dijk, Olga Unnarsdóttir, Eydís Valgarðsdóttir, Þóra Guðný Baldursdóttir, Kristín Rós Óladóttir, Ragnheiður Sveinsdóttir, Helga Sif Pétursdóttir, Þuríður Sólveig Árnadóttir, Jóhanna Másdóttir.

Nýjast