Er þeim drullusama um kennara??
Í síðustu viku 13. febrúar birtist yfirlýsing frá Akureyrarbæ á, heimasíðu bæjarins, þar sem Akureyrarbær firrir sig allri ábyrgð á kjarasamningum og kjarasamningsviðræðum við kennara.
Það er afskaplega skrítið að þau sem við kjósum til trúnaðarstarfa fyrir bæinn okkar geti afsalað sér einum stærsta útgjaldalið bæjarins, launum leikskólakennara, kennara og skólastjórnenda, til nefndar sem enginn, eða í mesta lagi einn, fulltrúi Akureyrar er í. Þeim virðist því nákvæmlega sama um þessa starfsstétt sem eru nokkur hundruð íbúar á Akureyri. Þeir velja að stinga hausnum í sandinn og segjast enga aðkomu hafa að þessum samningum. Er þeim þá líka drullusama um það að grunnskólakennarar og/eða leikskólakennarar fari í verkfall. Það hlýtur að vera. Þeir vilja ekkert vita af þessu fólki.
Er þá ekki bara best að skila skömminni til baka og láta ríkið sem rak grunnskólana, þar til síðustu ár síðustu aldar, fá skólana til baka. Ef Akureyrarbær vill ekkert af okkur vita þá er best að slíta þessu samstarfi.
Nú skulum við athuga það að Akureyri kynnir sig sem skólabæ, skólabærinn Akureyri. Það er væntanlega bara á 17. Júní og öðrum hátíðisdögum. Þegar harðnar á dalnum þá lætur Akureyri ekki bara skólastarfið daga uppi ef svo ber undir og leyfir nefnd í Reykjavík að vinna í málinu heldur líka heldur hreinlega gefur út yfirlýsingu þess efnis svo það fari alls ekkert á milli mála að Akureyrarbær stendur ekki með kennurum á sínu svæði.
Ef Akureyri vill í rauninni vera skólabær og bera nafnið með brjóstkassann úti þá eiga kjörnir fulltrúar að hafa áhyggjur af samningaviðræðum sveitarfélaganna og KÍ. Þeir eiga ekki bara að hafa áhyggjur, þeir eiga að hvetja þá sem eru með þeirra umboð til að ganga fram og koma í veg fyrir að skólar á Akureyri fari í verkfall. Nú þegar hefur einn grunnskóli klárað verkfallslotu og leikskóli hóf verkfall en þurfti að hætta. Það er hins vegar ekkert í hendi um að aldrei verði farið í verkföll hér. Það er frekar að svona yfirlýsing um að ætla alls ekkert að gera til að koma til móts við kennara hleypi illu blóði í kennara á svæðinu.
Ég hreinlega skil ekki svona yfirlýsingu. Við ætlum ekkert að skipta okkur af því hvernig kennaradeilan fer. Það er bara þannig að þrýstingur getur skapað vendingar. Nærtækt dæmi er landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu karla. Almenningur og fjölmiðlar sem hafa ekkert að gera með ráðningu landsliðsþjálfara fóru að krefjast þess að Arnar Þór yrði látinn fara og svo fór að lokum. Það var samt K.S.Í. sem reyndi í upphafi að hlusta ekki en svo urðu þeir að hlusta því að almenningi og fjölmiðlum kemur landsliðið við, hvort sem K.S.Í. kærir sig um það eða ekki.
Alveg eins og Akureyrarbær á ásamt fleiri sveitarfélögum að stíga inn í þessa deilu, hjálpa til við að leysa hana og krefjast þess að sérfræðingar á þeirra vegum fái laun í takt við nám og ábyrgð, vera stoltir atvinnurekendur kennara og geta þá stært sig af góðu skólastarfi í framtíðinni sem er mannað og rekið af sérfræðingum í kennslufræðum en ekki afleysingafólki (sem sum hver eru mjög frambærilega) sem kemur og fer eftir því hvernig vindar blása.
Ég hvet Akureyrarbæ til að endurhugsa þessa yfirlýsingu. Ég hvet Akureyrarbæ til að koma með aðra yfirlýsingu þar sem þeir standa með sínu fólki. Ég hvet Akureyrarbæ til að láta sig varða afkomu stórs hluta þeirra sem vinna hjá þeim.
Ég hvet formann bæjarráðs, Heimi Árnason, kennara, til að standa með sínum fyrrverandi starfsfélögum í þeirra baráttu en vera ekki hlutlaus áhorfandi sem þykist halda með hvorugu „liðinu“.
Bibbi, kennari á Akureyri.