Öflugt samstarf manns og hunds

Hilmar Freyr Birgisson, maður Alexöndru sér um að keppa með hundana á meðan Alexandra þjálfar. Mynd/…
Hilmar Freyr Birgisson, maður Alexöndru sér um að keppa með hundana á meðan Alexandra þjálfar. Mynd/aðsend

Þó að veturinn sé ekki snjóþungur um þessar mundir er áhugi á vetraíþróttum í miklum vexti á Húsavík og nágrenni . Ein þeirra íþrótta sem er að skjóta rótum er sleðahundasportið en keppt er í fjölbreyttum greinum innan þess.

Sleðahundaklúbbur Íslands stendur fyrir kynningardegi á íþróttinni á Húsavík nk. sunnudag en Húsavíkingar munu einmitt halda Íslandsmeistaramót sleðahundafólks 7.-8. mars. Guðný María Waage, formaður Félags hundaeigenda á Húsavík og Alexandra Karlsdóttir í stjórn Sleðahundaklúbbs Íslands eru á fullu í undirbúningi en blaðamaður Vikublaðsins heyrði í þeim í vikunni.

Kynningardagur fyrir alla fjölskylduna

Guðný María og Alexandra með hunda sína

Alexandra segir að félagið ætli að halda kynningardag að Vallholtsvegi 11 á Húsavík á morgun, sunnudag. Gatan verði lokuð frá 13:30 til 16:00 og munu félagsmenn bjóða börnum að setjast á hundasleða og láta draga sig á hjólavögnum, enda sé snjólaust í bænum. Alexandra segir að stefnt sé að því að kynna þessa skemmtilegu íþrótt fyrir Húsavíkingum og er jafnframt von um að safna fjármagni fyrir Íslandsmeistaramótið.

Fjáröflun fyrir Íslandsmeistaramótið

Guðný segist hlakka mjög til sunnudagsins þar sem börn muni fá tækifæri til að fara á hundasleða eða vagn með hjólum sem hundarnir draga, en það fer eftir veðri og snjó. Þá bendir hún á að heitt verði á könnunni og nýbakað bakkelsi til sölu. „Þar sem Húsavík er ekki með bakarí lengur munum við vera með til sölu nýbakað bakkelsi frá Akureyri til styrktar Sleðahundaklúbbi Íslands,“ segir Guðný og bætir við að markmiðið sé að skapa skemmtilegan dag fyrir bæði börn og hunda, og vekja athygli á hundasleðasportinu.

 Löng saga sleðahundasportsins

Sleðahundasport er í raun ævaforn iðja sem hefur verið stunduð í þúsundir ára, fyrst og fremst af frumbyggjum norðurslóða og síðar landkönnuðum sem notuðu hunda til að draga sleða með farangri og matvælum. Hundasleðar voru ómissandi samgöngutæki á snæviþöktum landsvæðum þar sem ökutæki voru ófær um að komast um. Ein þekktasta sleðahundakeppni veraldar er „Iditarod“ sleðahundakeppnin sem fer fram í Alaska og spannar yfir 1.500 km leið.

Í dag er sleðahundasportið víða stundað sem keppnisgrein og skemmtun. Keppnir eru oft haldnar á veturna þar sem keppendur keppa í mismunandi vegalengdum og flokkum eftir fjölda hunda og lengd leiða. Hundasleðakeppnir eru vinsælar bæði í Norður-Ameríku og Norður-Evrópu, þar sem íþróttin nýtur mikilla vinsælda.

Þeir hundar sem notaðir eru í sleðahundasportinu þurfa að vera mjög sterkir, úthaldsmiklir og góðir hlauparar. Algengustu hundategundirnar sem notaðar eru í keppnum eru síberíu huskíar og alaskan malamute. Síberíu huskíar eru smávaxnari og hraðari á meðan alaskan malamute eru sterkari og þola betur mikla þyngd.

Nýtt en vaxandi sport hér á landi

Það er ekki fyrr en á síðustu árum að fólk fór í auknum mæli að stunda þessa iðju sem íþrótt hér á landi en þarna fer að sjálfsögðu saman áhugi á heilbrigðri útivist og ástríðu fyrir hundum. Alexandra segir að nú standi fyrir þrifum að Sleðahundaklúbburinn sé að undirbúa stórt Íslandsmeistaramót sem haldið verður á skíðasvæði Norðurþings á Reykjaheiði í mars. „Keppendur á Íslandsmeistaramótunum hafa verið allt frá 10 til 30 manns undanfarin ár. Það er keppt í nokkrum flokkum þar sem keppendur geta valið milli keppnislengda, allt frá 1 km til 15 km. Auk þess eru flokkaskiptingar eftir fjölda hunda sem notaðir eru við sleðana, allt frá tveimur til fjórum hundum í stærri keppnunum,“ segir Alexandra.

Hvaða hundar sem er geta tekið þátt

Alexandra á sjálf sex hunda, sem eru skandinavískir sleðahundar. Hún segir að flestir keppendur séu enn að nota síberíu huskí hunda. „En fólk er líka að koma með hvers kyns hunda í þessar keppnir, sérstaklega í hjólakeppnir á sumrin,“ segir Alexandra en þá á hún við að hundarnir draga sleða eða vagna á hjólum. „Fyrir svona hobbýfólk þá er í raun hægt að nota nánast hvaða hunda sem er í þetta, en ef fólk er að spá í að keppa mikið í þessu þá fer fólk út í það að kaupa sér alvöru keppnishunda," bætir Alexandra við.

Frábær viðbót við hundalífið

Guðný hefur mikla ástríðu fyrir hundum en hún á sjálf tvo þýska fjárhunda. Hún segir að mikil gróska sé í gangi meðal hundaeigenda í bænum og að hana hlakki mikið til að taka þátt í Íslandsmeistaramótinu. Hún sé aðeins nýlega farin að prófa sig áfram í hundasleðasportinu og einnig með hjólasleða á sumrin. Guðný segir að í félaginu séu um 30 manns og félagið er sífellt að stækka. Eitt af verkefnum hennar undanfarin ár er að velja "hund mánaðarins" og taka viðtöl við hundaeigendur á Húsavík.

Hundasvæðið vinsælt

Útisvæðið sem var útbúið við gömlu sorpbrennslustöðina er vel nýtt af félaginu. Guðný segir að þar sé góðan félagsskap að finna. „Við höfum verið að bjóða upp á skipulagða hittinga, námskeið með hundaþjálfurum og margt fleira,“ segir Guðný og bætir við að nú verði brátt búin til sér gönguskíðabraut fyrir hundafólk á skíðasvæði Húsvíkinga en hundar séu annars almennt bannaðir á svæðinu. „Nú getum við bráðlega farið að æfa okkur fyrir íslandsmeistaramótið, það er fátt skemmtilegra en að láta hundinn draga sig á skíðum,“ segir Guðný en það er einmitt ein af keppnisgreinunum.

Samvinna manns og hunds

Sleðahundasportið krefst mikillar þjálfunar og samvinnu milli eiganda og hunda. Það er nauðsynlegt að hundarnir læri að hlýða skipunum og að vinna saman í hóp. Að stunda sleðahundasport getur verið bæði krefjandi og gefandi reynsla, þar sem það krefst bæði líkamlegrar getu og góðrar samskiptafærni.

Kynningardagur Sleðahundaklúbbs Íslands er frábært tækifæri fyrir fólk að kynnast þessari einstöku íþrótt og njóta góðs félagsskapar með hundaeigendum og sleðahundum. Það er ljóst að mikil ástríða og eldmóður búi í félaginu og að framtíðin er björt fyrir sleðahundasportið á Íslandi.

Nýjast