Skoða biðsvæði fyrir leigubíla í miðbæ Akureyrar
![Meirihluti skipulagsráðs telur að núverandi biðsvæði Strætisvagna Akureyrar við Hofsbót gæti hentað …](/static/news/lg/taxi.png)
„Við höfum fengið fyrirspurnir um bílastæði fyrir leigubíla í bænum,“ segir Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi á Akureyri
Breytt lög um leigubílaakstur tóku gildi í apríl árið 2023 sem hafa þau áhrif að ekki eru lengur fjöldatakmarkanir á atvinnuleyfum eins og áður var. Nýlega hafa borist fyrirspurnir um hvort að í miðbæ Akureyrar séu til staðar stæði þar sem leigubílar geta beðið eftir viðskiptavinum, sérstaklega um helgar.
Meirihluti skipulagsráðs telur að núverandi biðsvæði Strætisvagna Akureyrar við Hofsbót gæti hentað vel sem biðsvæði fyrir leigubíla eftir að strætó hættir að ganga á kvöldin. Væri það þó eingöngu til bráðabirgða þar til lóðinni er úthlutað og framkvæmdir hefjast.
Pétur Ingi segir að um þessar mundir séu að minnsta kosti þrír aðilar sem bjóði upp á sjálfstæðan leigubílaakstur í bænum og að þeim gæti fjölgað í framtíðinni. Því hafi verið ákveðið að skoða þetta. Óskað hefur verið eftir umsögn umhverfis- og mannvirkjasviðs um málið.