Byggingaverktakar segja aðstæður óviðunandi í Móahverfi
Byggingaverktakar í Móahverfi hafa farið fram á að Akureyrarbær og Norðurorka veiti framlag til þeirra verktaka sem eru að byggja í Móahverfi á Akureyri til að koma til móts við aukakostnað sem á þá hefur fallið, m.a. vegna þess að rafmagn er ekki komið á verkstaði í hverfinu og veitur heldur ekki tilbúnar. Þetta hafi valdið ómældum kostnaði fyrir þá verktaka sem eru að byggja á svæðinu.
Meistarafélag byggingamanna á Norðurlandi sendi frá sér ályktun um málið þar sem vakin er athygli á óviðunandi aðstöðu verktaka í hinu nýja hverfi. „ Það er gríðarlegur aukakostnaður sem hefur fallið á byggingarverktaka við að verða sér sjálfir út um allar veitur. Þess má geta að ca. 1,5 milljón kostar að keyra rafstöð á hverjum verkstað á mánuði sem gerir ekkert annað en að hækka íbúðaverð í þessu hverfi. Reikna má með að þessi hækkun hafi áhrif á allt íbúðaverð á Akureyri, vegna þess að hækkun húsnæðisverðs hefur áhrif á „fasteignamat“ í öllu sveitafélaginu,“ segir í ályktun meistarafélagsins.
Fól í sér ákveðna óvissu
Fram kemur í svari Akureyrarbæjar og Norðurorku að ákveðið hafi verið á sínum tíma að bjóða lóðir í Móahverfi út áður en framkvæmdir við uppbyggingu gatna hófust til að gefa tilvonandi lóðarhöfum góðan tíma til undirbúnings þannig að hægt væri að fara í uppbyggingu á svæðinu um leið og lóðirnar yrðu byggingarhæfar. „Þetta fól auðvitað í sér ákveðna óvissu og þess vegna kom skýrt fram í útboðsskilmálum að afhending lóða gæti orðið síðar en stefnt væri að,“ segir í svarinu.
Bent er á að Akureyrarbær og Norðurorka hafa frá upphafi framkvæmda reynt að koma til móts við lóðarhafa eins og hægt er, m.a. til að lágmarka óþarfa kostnað. Þá hafi regluleg samskipti um stöðu mála verið við Meistarafélag byggingarmanna á Norðurlandi
Taka tillit til lóðarhafa
„Akureyrarbær og Norðurorka hafa allan þennan tíma reynt að taka tillit til hagsmuna lóðarhafa eins og hægt er sem hefur gert það að verkum að aldrei hefur orðið stopp á framkvæmdum innan lóða þó svo að unnið hafi verið að umfangsmikilli uppbyggingu gatna og veitna samhliða. Að hafa framkvæmdir innan lóða í gangi samhliða framkvæmdum við götur og veitur getur verið snúið og haft í för með sér ýmsan aukakostnað. Má þannig gera ráð fyrir að verkið væri komið mun lengra en raunin er í dag ef lóðarhafar hefðu ekki fengið að fara af stað með framkvæmdir.“
Umræður í bæjarráði
Hilda Jana Gísladóttir Samfylkingu lét bóka: ,,Mikilvægt er að kjörnir fulltrúar og almenningur fái upplýsingar um uppbyggingu Móahverfis, þær áskoranir sem upp hafa komið, sem og þann viðbótarkostnað sem fallið hefur til. Það er að mínu mati hægt að gera hvort heldur sem er með innri eða ytri úttekt eða samantekt, hvort heldur sem er núna eða þegar fyrsta áfanga lýkur. Í þeirri úttekt eða samantekt, er mikilvægt að allir sem að málum hafa komið þ.m.t. Akureyrarbær, Norðurorka og einkaaðilar s.s. hönnuðir og verktakar, fái tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og koma með tillögur að því hvernig bæta mætti ferlið. Markmiðið er að allir sem að málum koma, við þessa umfangsmiklu uppbyggingu, fái tækifæri til þess að læra af reynslunni, þannig að sú þekking nýtist.,,
Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista bar upp svohljóðandi tillögu: ,,Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna að undirbúningi að ytri úttekt á allri framkvæmd við Móahverfi og verkferlum við stærri framkvæmdir og leggja fyrir bæjarráð lýsingu á verkbeiðni og kostnaðarmat fyrir lok febrúar.“ Bæjarráð felldi tillögu Sunnu. Einn greiddi atkvæði með tillögunni, þrír greiddu atkvæði gegn tillögunni. Hilda Jana Gísladóttir S-lista situr hjá.
Meirihluti bæjarráðs lét svo bóka:
,,Meirihluti bæjarráðs telur ekki tímabært að hefja vinnu við úttekt á þessu stigi þar sem framkvæmdir eru enn í fullum gangi í Móahverfinu. Staðan verður endurmetin þegar fyrsta áfanga verður lokið. til framtíðar