Leiguflug frá Sviss til Akureyrar hafin að nýju

Flugvél á vegum svissnesku ferðaskrifstofunnar Kontiki lenti á Akureyrarflugvelli um liðna helgi,en hún kom í beinu flugi frá Zurich í Sviss. Flogið verður vikulega á sunnudögum næstu sex vikurnar. Þetta er annað árið í röð sem boðið er upp á vetrarferðir til Akureyrar frá þessari stærstu borg Sviss.
Flugferðir Kontiki bætast við ört vaxandi millilandaflug til Akureyrar að vetrarlagi. Um er að ræða leiguflug sem eru með svipuðu sniði og flug á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel, sem hófust árið 2019.
Gekk vel í fyrra
Samtal Flugklasans við Kontiki hófst árið 2018, en meiri skriður komst á málin árið 2022. „Nú er þetta orðið að veruleika og svissneskir ferðamenn eiga auðveldara með að kynnast Norðurlandi að vetri til, og njóta þess sem vetrarferðaþjónusta á svæðinu snýst um. Ferðirnar gengu vel á síðasta ári og almenn ánægja var bæði meðal ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi og hjá viðskiptavinum Kontiki,“ segir á vef Markaðsstofu Norðurlands.