Landssöfnun á birkifræi hófst í Reykhúsaskógi

Lionsklúbburinn Sif í Eyjafjarðarsveit hefur lagt átakinu Söfnum og sáum birkifræi lið frá upphafi o…
Lionsklúbburinn Sif í Eyjafjarðarsveit hefur lagt átakinu Söfnum og sáum birkifræi lið frá upphafi og segir Sifjarkonur leggja áherslu á að þetta sé árlegur krúttviðburður á Degi íslenskrar náttúru, alltaf í Reykhússkógi á milli 17 og 19. Hér eru þær Hrönn Arnheiður Björnsdóttir og Birna Snorradóttir, félagskonur í Sif í Eyjafjarðarsveit.

Átakið Söfnum og sáum birkifræi hófst á degi íslenskrar náttúru 16. september með því að Lionsklúbburinn Sif í Eyjafjarðarsveit stóð fyrir söfnun í Reykhúsaskógi í Eyjafjarðarsveit. Þetta var í fjórða sinn sem klúbburinn efnir til slíks viðburðar og leggur sitt af mörkum til átaksins. Fræsöfnunarfólkið gat svo gætt sér á veitingum í Hælinu í Kristnesi sem hafði sérstaklega opið að þessu tilefni.

Vel viðraði til fræsöfnunar í Reykhúsaskógi. Fræið var vel þroskað á trjánum og mjög mikið af því. Söfnunarfólk hafði á orði að það þyrfti varla að ganga á milli trjáa því auðvelt væri að fylla heila söfnunaröskju með fræi af einu tré. Sömu sögu er að segja víða um land. Gott fræár er á birki víðast hvar og fólk er hvatt til að nýta tækifærið og stuðla að útbreiðslu birkis, hvort sem er með því að safna og skila fræinu í Bónus-verslunum, Olís-stöðum og starfstöðvum Lands og skógar eða með því að sjá sjálft um að sá fræinu þar sem æskilegt er að birkið geti vaxið upp og dreift áfram úr sér.

Anna Blöndal var ein þeirra sem komu í Kristnesskóg til að tína fræ. Hún er reyndar ekki félagi í Lionsklúbbnum Sif heldur í Lionsklúbbnum Ylfu á Akureyri. Hún segir að Lionshreyfingin sé mjög sterk á Eyjafjarðarsvæðinu og margir öflugir klúbbar starfandi sem gjarnan megi vinna enn meira saman. Einkenni hreyfingarinnar sé að gera samfélaginu og umhverfinu gott og fræsöfnunarátakið falli vel að þeim markmiðum.

Anna Blöndal sem er í Lionsklúbbnum Ylfu á Akureyri lét sitt ekki eftir liggja í söfnun birkifræs í Reykhússkógi

Samtakamátturinn gerir kraftaverk

Lionshreyfingin er komin á annað árhundraðið, segir Anna, stofnuð í Chicago 1917. Árið 1951 var fyrsti klúbburinn stofnaður á Íslandi og framan af störfuðu félögin að mestu á heimavelli. Eftir að alþjóðlegur hjálparsjóður Lions var stofnaður 1968 var fyrsta meiri háttar framlagið sent til Íslands eftir Vestmannaeyjagosið. Auk framlags úr sjóðnum sendu Lionsklúbbar víða um heim framlög og samanlagt dugði styrkurinn fyrir innbú og búnað í heilt sjúkrahús. Þannig segir Anna að samtakamátturinn geti gert kraftaverk þótt hver einstaklingur geti kannski ekki gert mikið. Það gildi sannarlega um íslenska birkið. Með samtakamætti getum við gert mikið til að endurheimta birkiskógana okkar sem hurfu. Framlag hvers og eins okkar geti því skipt miklu máli. Hún hvetur aðra Lionsklúbba um allt land til að taka Sif í Eyjafjarðarsveit sér til fyrirmyndar og standa fyrir söfnun og sáningu á birkifræi.

Sifjar konur söfnuðu á þessum tveimur tímum 1. 972 kílóum af birkifræi eða allt að 2,5 til 3 milljónir fræja. Miðað við varlega áætlaða spírunarprósentu gætu því 1,5-2 miljónir birkiplantna litið dagsins ljós eftir þessa dagstund Lionskvenna í Eyjafjarðarsveit.

Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyjafjarðar leit við þegar átakið hófs og ræðir hér við Hrönn Arnheiði. 

Að átakinu stendur Land og skógur í samvinnu við skógræktarfélögin í landinu, Lionshreyfinguna og fleiri samtök. Bónus og Olís styðja við átakið með því að útvega aðstöðu til að taka á móti fræi og Prentmet Oddi sér um framleiðslu á söfnunaröskjum og -kössum. Engin tímamörk eru á átakinu. Ef tíðin er góð má safna birkifræi langt fram á vetur svo lengi sem það hangir á trjánum.

 Fyrsta árið sem Sifjar konur söfnuðu birki var ansi napurt úti þannig að þær fengu Maríu Pálsdóttur á Hælinu í lið með sér, en hún veitir söfnurum húsaskjól að verki loknu og framleiðir grænmetisböku sem kvað var á barmi heimsfrægðar. Myndir Pétur Halldórsson og Ingólfur Jóhannsson.

 

 

Nýjast