Lambadagatalið fyrir 2025 að koma út í ellefta sinn

Ærin Móflekka  er á forsíðu Lambadagatals 2025 og einnig í maímánuði.  Hún var fimmlemd í vor og er …
Ærin Móflekka er á forsíðu Lambadagatals 2025 og einnig í maímánuði. Hún var fimmlemd í vor og er fyrsta ærin í búskap Ragnars og fjölskyldu sem nær þeim árangri. Móflekka er alsystir Lottusem var fjórlemd og prýddi forsíðu dagatalsins 2024. Myndir Ragnar bóndi í Sýrnesi

Hið vinsæla lambadagatal Ragnars Þorsteinssonar, sauðfjárbónda og ljósmyndara í Sýrnesi Aðaldal, er nú orðið ellefu vetra og ekkert lát á eftirspurn.Ragnar tekur að venju allar myndirnar í dagatalið á sauðfjárbúi fjölskyldunnar í Sýrnesi.

 Í Lambadagatalinu 2025 eru allar myndir teknar á sauðburði 2024 og þær endurspegla einnig veðurfarið frá þeim árstíma. Uppsetning og hönnun dagatalsins er einnig í höndum Ragnars, ásamt fjármögnun þess og sala. Dagatalið hefur verið fjármagnað á Karolina fund síðastliðin níu ár og hefur það verkefni alltaf gengið upp „og fjármögnunin núna varð sú mesta sem við höfum náð,“ segir Ragnar.  „Þetta átti nú bara að vera til gamans svona einu sinni, prufa að gefa út dagatal með ljósmyndum af ómörkuðum unglömbum og forvitnast um hvort einhverjir hefðu áhuga á því og þetta er eiginlega búið að vera ævintýri síðan.“

Fær lof fyrir góðar ljósmyndir

Ragnar stofnaði Facebook-síðuna Lamba Lamb undir veffanginu facebook.com/lambidmitt og þar seldist fyrsta upplagið upp á örfáum dögum. Fylgjendur síðunnar eru nú  orðnir rúmlega 1.600 og hún er mikið heimsótt. „Maður bæði hittir og á í samskiptum við fólk um allt land sem er bara skemmtilegt og svona markaðssetning væri ekki möguleg ef ekki væri fyrir netið og samfélagsmiðla. Móttökur við þessar hugmynd hafa verið frábærar og ég fengið mikið lof fyrir fallegar ljósmyndir og útlit dagatalsins. Salan fer eingöngu fram, „beint frá býli,” segir Ragnar en sölu til verslana var hætt vegna hárrar álagningarkröfu.

Breiðir út fegurð og fjölbreytileika

Megintilgangur útgáfunnar er fyrst og fremst að breiða út fegurð og fjölbreytileika íslensku sauðkindarinnar sem hefur séð þjóðinni fyrir mat og hita frá landnámstíð  „og án hennar værum við tæplega til sem þjóð í dag.“ Allir hefðbundnir helgi- og frídagar eru merktir á dagatalið, einnig fánadagar, koma jólasveinanna, gömlu mánaðarheitin, tunglgangur og ýmsir dagar er tengjast sögu lands og þjóðar

Nýjast