Læknir sem ákærður er fyrir hrottalegt heimilisofbeldi, starfar á Húsavík

Tómas Halldór Padjek, lækn­irinn sem greint var frá í gær að hafi verið ákærður fyr­ir of­beldi gegn konu sinni og börn­um starfar hjá Heil­brigðis­stofn­un Norður­lands (HSN) á Húsa­vík. Ákæra á hend­ur hon­um var gef­in út af lög­reglu­stjór­an­um á Vest­fjörðum og er mann­in­um gefið að sök að hafa yfir sjö ára tíma­bil beitt eig­in­konu sína of­beldi og hót­un­um.

Í ákærunni segir og RÚV greinir frá, að hann hafi hótað konunni að binda enda á líf hennar með lyfjagjöf og skoða sjúkraskrár hennar. Aðalmeðferð málsins verður við héraðsdóm Vestfjarða síðar í þessum mánuði.

„Maðurinn er ákærður fyrir hegningarlagabrot og brot gegn barnaverndarlögum. Í ákærunni, sem fréttastofa RÚV hefur undir höndum, segir að ofbeldið hafi staðið yfir um áralangt skeið. Það hafi hafist þegar konan var barnshafandi og samkvæmt ákærunni réðst maðurinn þá á konuna og hótaði henni lífláti ef hún færi af heimilinu.

Hann er ákærður fyrir að hafa neitað henni um aðstoð þegar hún var fótbrotin og að hafa nokkrum sinnum hótað að drepa hana með því að gefa henni of mikið insúlín með fjarstýringu sem stýrir inngjöf, en hún er sykursjúk og að hafa læst hana inni þegar hún var lág í sykri þannig að hún óttaðist um líf sitt,“ segir í frétt RÚV.

Sagt upp með látum

Tómasi Halldóri var sagt upp störfum á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða með látum árið 2013 en frá því var greint á Vísi

Í yf­ir­lýs­ingu frá Tóm­asi, sem birt var á vef Bæj­ar­ins besta, í kjölfar uppsagnarinnar seg­ir að fram­kvæmda­stjóri stofn­un­ar­inn­ar, Þröst­ur Óskars­son, og fram­kvæmda­stjóri lækn­inga við stofn­un­ina, Þor­steinn Jó­hann­es­son, hafi bannað sér að mæta til vinnu frá og með 12. nóv­em­ber. „Þetta gerðu þeir án nokk­urs rök­stuðnings og án þess að nefna nokkra ástæðu, þrátt fyr­ir að ég hafi lýst yfir vilja til að vinna við stofn­un­ina út árið, eins og ég er með samn­ing upp á, og jafn­vel leng­ur,“ sagði í yf­ir­lýs­ing­unni. 

Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands segir í samtali við Vikublaðið að Tómas hafi ekki verið í föstu starfi við stofnunina síðan honum var sagt upp árið 2013 en tvívegis verið fenginn í afleysingar.

Aðspurður hvað átt sé við með því að lækninum hafi verið sagt upp með látum sagðir Gylfi að hann þekkti ekki nákvæmlega til þess enda ekki verið forstjóri stofnunarinnar á þeim tíma. „Ég var ekki byrjaður þá en það voru samskiptaerfiðleikar hér innanhúss en ekkert ofbeldi eða slíkt,“ segir Gylfi.

Ekki hefur náðst í Jón Helga Björnsson forstjóra HSN vegna málsins en hann sendi stutt skilaboð á blaðamanna þar sem hann sagði að ekki hafi verið vitað af ásökunum á hendur lækninum þegar hann var ráðinn til Húsavíkur.

Fréttin hefur verið uppfærð

Nýjast