Kynning á verkefninu Lausu skrúfunni tókst vel

Kynning tókst vonum framar og kom á óvart hversu mikinn áhuga almenningur hefur á geðheilbrigðismálu…
Kynning tókst vonum framar og kom á óvart hversu mikinn áhuga almenningur hefur á geðheilbrigðismálum Myndir Lausa skrúfan

Lausa skrúfan fer formlega í sölu í febrúar, enda getur það verið erfiður mánuður fyrir þau sem glíma við andlegar áskoranir. Því er sérstaklega mikilvægt að huga að geðinu í myrkrinu og kuldanum sem fylgja vetrarmánuðunum.,“ segir Sonja Rún Sigríðardóttir verkefnastjóri Unghuga og kynningarmála hjá Grófinni geðrækt.

Verkefnið Lausa skrúfan var kynnt fyrir gestum og gangandi á Glerártorgi í liðinni viku og tókst mjög vel til. Um er að ræða samfélagslega vitundarvakningu um geðheilbrigði og geðrækt. „Við erum öll með geð og þurfum öll að læra að hlúa að því,“ segir Sonja og bætir við að hægt sé að finna upplýsingar á vefsíðunni lausaskrufan.is. Verkefni er einnig fjáröflun sem mun í fyrstu tryggja rekstur Grófarinnar en framtíðarsýnin er að verkefni geti styrkt fleiri verkefni sem snúa að geðrækt á Norðurlandi.

Sonja Rún Sigríðardóttir verkefnastjóri Unghuga og kynningarmála hjá Grófinni

Erum meyr eftir daginn

Kynning á verkefninu tókst vonum framar á Glerártorgi og segir Sonja að tekist hafi að safna einhverjum styrkjum, en það hefði vakið athygli sína hversu fólk er almennt áhugasamt um geðheilbrigðismál. Fjöldi sjálfboðaliða veitti aðstoð. Ívar Helgason og Salsa North tóku þátt í deginum en auk þess að kynna Lausu skrúfuna var haldið upp á 11 ára afmæli Grófarinnar.

„Við erum satt best að segja frekar meyr eftir daginn og við hlökkum til að halda þessu verkefni áfram,“ segir hún, en fyrir liggur að annar viðburður verður haldin síðar. „Við vonumst svo til að  komast með Lausu skrúfuna inn á fleiri staði, við ætlum okkur að vera eins sýnileg og mögulegt er.“

Nýjast