20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Kveðjutónleikar og útgáfuhóf í Sögulokum Hrundar Hlöðversdóttur
Sögulok er yfirskrift viðburðar sem Hrund Hlöðversdóttir efnir til í félagsheimilinu Laugarborg í Eyjafjarðarsveit á laugardaginn, 4. maí. Þar kveður hún sveitunga sína, en Hrund hefur búið í Eyjafjarðarsveit undanfarin 16 ár, þar af var hún skólastjóri Hrafnagilsskóla um 12 ára skeið ár. Sögulokin eru jafnframt útgáfuhóf því um þessar mundir kemur út þriðja og síðasta bók Hrundar í þríleik hennar um Svandísi og félaga hennar. Sú heitir ÓLGA, kynjaslangan.
„Síðustu árin hafa hulduheimar og þjóðsagnaarfur Íslendinga verið mér hugleikinn og ég hef síðan 2018 skrifað þrjár skáldsögur þar sem ævintýraheimur þjóðsagnanna er fléttaður við raunheima,“ segir Hrund, en fyrsta bókin, ÓGN, ráðgátan um Dísar-Svan kom út í út í miðjum heimsfaraldri haustið 2021. Svipað ástand var uppi á teningnum þegar önnur bókin kom út, farið með varúð í allt samkomuhald og ekki svigrúm fyrir útgáfuhóf. „Nú loksins er hægt að blása til samverustunda og ég læt það tækifæri ekki ganga mér úr greipum,“ segir Hrund. Bækur hennar eru ætlaðar lesendum frá 12 ára aldri og fjalla um unglinga, Svandísi og vini hennar sem lenda í ævintýrum tengdum álfheimum. Í Sögulokum verða leikin lög sem tengjast þjóðtrú og sagnaheimi bóka Hrundar og inn á milli fá hlustendur innlit inn í þjóðsagnarheim þar sem álfar, draugar, skelfilegar kynjaskepnur og skrímsli ráða ríkjum. Með henni verða Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari, Guðrún Hrund Harðardóttir, lágfiðluleikari og Jón Hrói Finnsson, sögumaður.
Í harmonikunámi
Hrund hefur undanfarin ár stundað harmonikkunám við Tónlistarskóla Eyjafjarðar, en fyrr á ævinni hafði hún lært bæði píanóleik og söng. Hún hefur haldið nokkra tónleika, spilað á harmonikkuna og sungið lög sem hún hefur hljómsett þannig að þau henti hennar raddsviði.
„Það verða lesnir textar sem lýsa söguheimi bókanna minna en þar er ég að vinna með ævintýraheiminn sem er að finna í íslenskum þjóðsögum. Eftir hvern lestur er spilað lag sem tengist því sem var verið að lesa um hverju sinni t.d. þegar lesið verður um draugana sem finna má í íslenskum þjóðsögum er sungið og spilað lag um drauga,“ segir Hrund en viðburðurinn tekur um klukkustund og er hugsaður sem skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Á tímamótum
Hrund lætur af störfum sem skólastjóri nú í vor og stendur í ströngu við að pakka búslóð sinni niður og koma fyrir í geymslu. „Það eru tímamóti í mínu lífi,“ segir hún en um mitt sumar heldur hún í ferðalag sem hefst með þriggja mánaða dvöl í Danmörku og þaðan liggur leiðin til Spánar þar sem hún verður í mánuð. Miðbær Reykjavíkur er næstur á dagskrá og eftir áramót segir hún að sé algjörlega óráðið hvað hún taki sér fyrir hendur.
„Hvað tekur við eftir það er algjörlega óvíst, ég veit ekki hvert lífið leiðir mig en ég hlakka til að hefja þessa nýju vegferð,“ segir hún.
Hrund hyggst fást við ritsmíðar næstu mánuði og segir að hugmynd að nýrri bók hafi skotið upp kollinum. „Nú sný ég mér frá þjóðsögunum og ungmennaævintýrunum og ætla að skrifa bók fyrir fullorðna sem fjallar um leitina að ástinni á öllum tímum ævinnar. Þetta verður skvísubók en inn í söguna verður fléttað sögu um ástarævintýri ungs hermanns sem kemur til Íslands árið 1943,“ segir Hrund.
Menningarmálanefnd Eyjafjarðarsveitar og Norðurorka styrkja viðburðinn í Laugarborg, en hátíðin hefst kl. 15 og veður endurtekinn kl. 17. Miðar eru seldir á tix.is og verði stillt í hóf.