Krían komin til Grímseyjar
Fyrstu kríurnar þetta árið í Grímsey sáust um helgina. Varpið þar er með stærri kríubyggðum á landinu og er talið að þar verpi þúsundir para. Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á breytingum kríuvarpa frá ári til árs en margt bendir til fækkunar víða á landinu frá því um aldamót, einnig hefur orðið vart við sömu þróun í nágrannalöndum okkar.
Líf kríunnar er eitt samfellt sumar. Til þess að svo geti verið leggur hún á sig lengra flug en nokkur annar fugl. Kríurnar koma jafnan til Grímseyjar í um mánaðamótin apríl-maí og sjást stundum fram í byrjun október þótt megnið af stofninum fari á brott fyrir ágústlok. Þær fljúga suður um höfin og nýta sér gjarnan ríkjandi staðvinda og eru komnar í Weddellhafið við Suðurskautslandið í nóvember. Þar dvelja þær hina suðrænu sumarmánuði fram í byrjun apríl en halda þá aftur norður á bóginn eftir Atlantshafshryggnum miðjum.
Yann Kolbeinsson og kollegar hans hjá Náttúrustofu Norðausturlands bíða spenntir eftir endurkomu kríunnar á Tjörnesið en síðastliðið sumar voru nokkrar kríur þaðan merktar með dægurritum til að fylgjast með för þeirra. Sambærileg rannsókn var gerð í Flatey á Breiðafirði sumarið 2007 og leiddi í ljós að árlegt farflug þeirra er allt að 80 þúsund km. Það samsvarar um tveimur hringjum umhverfis jörðina. Krían getur orðið yfir 30 ára gömul og flýgur þá um ævina sem samsvarar sjöfaldri vegalengdinni til tunglsins.
Til gamans er hér hlekkur á grein sem fjallar um grænlensku kríurnar og þá íslensku sem endurheimtist í rannsókninni árið 2007.