20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
KOSNINGARÉTTUR
Við vanmetum oft það sem þykir sjálfsagt!
Árið 1843 rak kosningaréttur fyrst á fjörur okkar Íslendinga með tilskipun Kristjáns VIII, en eingöngu til karlmanna eldri en 25 ára sem áttu jörð. Það var um 2% íslensku þjóðarinnar.
Árið 1857 var ekki lengur þörf á að eiga jörð, nægjanlegt að búa á eigin heimili og borga skatta. Konur virtust ekki vera landsmenn á þessum tíma.
Hvorki konur, kýr, kettir né kindur voru með kosningarétt
Krafan um kosningarétt kvenna var fyrst orðuð opinberlega árið 1885 á þingmálafundi Suður-Þingeyinga. Marga þingmenn óaði við því að auka kosningaréttinn til fólks sem hefði ekki náð jafn miklum þroska og þeir sem kosningarétt höfðu þá þegar. Jón Jónsson á Hvanná, framsýnn og réttsýnn þingmaður varaði beinlínis við því að konur fengju kosningarétt: „En að sleppa þessum réttindum við þær strax og allt í einu yrði bylting í svip.“ Blessuð sé minning þessa sómamanns.
Árið 1914 fengu konur og vinnumenn 40 ára og eldri, kosningarétt til Alþingis
Augljóslega var þroski 25 ára karla meiri en 40 ára kvenna. Árið 1920 fengu allir 25 ára og eldri kosningarétt, óháð kyni og atvinnu. Þá voru konur og vinnumenn orðin jafnrétthá „karlmönnum“.
Alþingiskosningar 2024
Nú stefnir í eina athyglisverðustu kosningar til Alþingis í langan tíma. Á framboðslistum eru margir góðkunningjar en einnig margir sem hafa ekki verið á þessum vígvelli áður. Það hefur valdið áhyggjum að ungt fólk skilar sér illa á kjörstað. Það var því ánægjulegt í forsetakosningunum síðustu hversu mikil kosningaþátttaka ungs fólks var. Ég vona að sú verði raunin einnig nú. Ég hef alltaf hvatt ungt fólk til að kjósa, í það minnsta mæta á kjörstað. Í versta falli að skila auðu, það eru líka ákveðin skilaboð í því.
Ég get vel skilið að fólk viti stundum ekki alveg hvað það eigi að kjósa
Ekki gera samt eins og einn ættingi minn, sem dæsti þegar ég spurði hvað hann hafði kosið í forsetakosningum. Jú, þann sem var efstur á kjörseðli. Með atkvæði okkar erum við að setja okkar mark, þótt atkvæði okkar virðist ekki vigta mikið, á hvernig landinu okkar verður stjórnað. Ég mæli ekki með því að kjósa eftir staðsetningu á kjörseðli. Ekki heldur að kjósa það sama og foreldrar eða vinir. Svo má líka skipta um skoðun, það þarf ekki að kjósa það sama og síðast. Vissulega tekur það tíma að setja sig inn í málefni flokka, áherslur sem og fyrir hvað frambjóðendur standa.
Berum virðingu fyrir baráttu formæðra og -feðra okkar í að afla kosningaréttarins. Örkum á kjörstað í spariklæðnaði og nýtum kosningaréttinn með bros á vör.