20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Kjaftforir leiðtogar
Það vakti eðlilega mikla athygli á dögunum þegar Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands sagði af sér sem forseti sambandsins. Í fjölmiðlum hefur hún borið því við að hún hafi átt mjög erfitt með að vinna með ákveðnum verkalýðsforingjum, ekki síst þeim sem leiða tvö langstærstu stéttarfélög landsins, auk formanns Verkalýðsfélags Akraness. Drífa hefur reyndar í viðtölum nefnt fleiri formenn s.s. þann sem þetta skrifar. Hún hefur meðal annars kvartað yfir því að menn væru kjaftforir og yfirlýsingaglaðir og því erfitt að vinna með þeim.
Sú hin sama Drífa virðist alveg hafa gleymt því þegar hún kvaddi VG með miklum hávaða á sínum tíma, er flokkurinn fór í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Hún líkti því við ofbeldissamband og sagði það eins og að éta skít í heilt kjörtímabil. Er von að spurt sé í hvað fráfarandi forseti ASÍ sé að vísa þegar hún talar um kjaftfora verkalýðsforingja? Er það orðið skammaryrði að tjá skoðanir sínar opinberlega í þágu verkafólks?
Það sem vekur jafnframt athygli og er reyndar full ástæða til að gagnrýna er að kjörinn forseti ASÍ skyldi ekki sitja út kjörtímabilið, því verkalýðshreyfingin er jú fjöldahreyfing sem byggir á virku lýðræði og skoðanaskiptum þeirra sem mynda hreyfinguna á hverjum tíma.
Auðvitað er fullkomlega eðlilegt að menn séu ekki alltaf sammála búandi við skoðanafrelsi. Drífa hefði hins vegar getað sent frá sér yfirlýsingu um að hún gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir Alþýðusambandið eftir þing sambandsins í haust. Það er til að búa menn undir breytingar. Fyrir liggur að hún nýtur ekki stuðnings öflugra og fjölmennra stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins til áframhaldandi starfa sem forseti. Að mínu mati varð það forsetanum að falli að hafa ekki lagt meira upp úr því að sameina ólíkar skoðanir innan hreyfingarinnar til góðra verka. Þá hefur verið ákveðin tilhneiging til að þagga niður viðkvæm mál innan hreyfingarinnar, sem eiga að sjálfsögðu að vera upp á borðinu í stærstu fjöldahreyfingu samtaka launafólks. Burtséð frá því hef ég átt ágætt samstarf við Drífu og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. Vitaskuld höfum við stundum tekist á og ekki alltaf verið sammála um málefni verkalýðshreyfingarinnar, sem er afar eðlilegt í jafn fjölmennri hreyfingu. Það má Drífa eiga að hún hefur hingað til talað kraftmikla íslensku og fylgt skoðunum sínum og málefnum ASÍ eftir af einurð. Hún hefur jafnvel verið kjaftfor á tímum í umræðunni, það er á sama tíma og hún hefur gagnrýnt ákveðna verkalýðsforingja fyrir það sama og talið það ekki vera þeim til framdráttar.
Réttur fólks til að tjá sig er eðlilegur hluti þess að búa í frjálsu samfélagi, en það hefur hins vegar ekki alltaf verið vinsælt innan hreyfingarinnar að menn tjái skoðanir sínar tæpitungulaust. Þar hafa þeir valdasjúku talað fyrir því að best sé að hafa einn talsmann sem tali fyrir hönd hreyfingarinnar út á við í anda Salek. Þannig vilja þeir tryggja að talað sé einni röddu, það er svo hinn róttækari armur komi ekki skoðunum sínum á framfæri enda lengi verið í minnihluta í hreyfingunni. Vissulega minnir þetta nokkuð á stjórnskipulagið í Norður Kóreu þar sem leitast er við að viðhalda þröngu hugmyndafræðilegu aðhaldi.
Ummæli ákveðinna formanna innan valdablokkarinnar í fjölmiðlum undanfarið í garð „félaga“ sinna innan hreyfingarinnar hafa verið á verulega lágu plani svo ekki sé meira sagt. Þau halda því fram að ofbeldismenning hafi tekið yfir verkalýðshreyfinguna og hópur fólks hafi komist til valda innan hreyfingarinnar með offorsi, ærumeiðingum og eineltistilburðum. Er ekki allt í lagi hjá þessu blessaða fólki? Þeir sem tóku þátt í jaðarsetningu annarra óttast nú að verða jaðarsett sjálf í beinni útsendingu.
Það er löngu tímabært að taka upp róttækari verkalýðsbaráttu á Íslandi með hagsmuni verkafólks að leiðarljósi. Róttæk barátta kallar á umskipti í forystusveit Alþýðusambands Íslands á þingi sambandsins í haust. Það er ekki nýtt að kallað sé eftir róttækari verkalýðsbaráttu. Þegar saga Alþýðusambandsins er skoðuð má sjá að andstæðar fylkingar tókust iðulega á um stefnu Alþýðusambandsins á fyrrihluta síðustu aldar og oft urðu illvígar deilur milli þeirra. Án efa verður áfram tekist á um helstu málefni sambandsins um ókomna tíð. Þá hefur sagan jafnframt kennt okkur að róttækar hugmyndir og byltingar eru alltaf ógn við ríkjandi valdakerfi, þannig hefur það alltaf verið og víða í heiminum er fólk drepið eða fangelsað fyrir hugmyndir sem ganga gegn valdhöfum.
Hvað sem öðru líður er núverandi staða innan hreyfingarinnar með öllu ólíðandi. Við berum þar öll ábyrgð sem störfum í hreyfingunni og það er ekki í boði að sitja hjá. Ég hef talað fyrir því að menn legðu stríðshanskana á hilluna. Því miður virðist vera afar lítill áhugi fyrir því miðað við síðustu ummæli forystumanna í hreyfingunni sem tala um að ofbeldismenning viðgangist innan hennar. Þau eru ekki saklaus frekar en aðrir sem hafa tjáð sig um stöðuna í verkalýðshreyfingunni. Meðan menn átta sig ekki á sameiginlegri ábyrgð heldur áfram að molna undan verkalýðshreyfingunni, því miður.
Aðalsteinn Árni Baldursson