Kaupmáttur skiptir mestu máli
Hátíðardagskrá í tilefni 1.maí var haldin í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Fyrsta maínefnd stéttarfélaganna á Akureyri segir í ávarpi sínu að mikilvægt sé að samfélagið allt taki á með verkalýðshreyfingunni í viðureigninni við verðbólguna.
Kaupmáttur er það sem skiptir vinnandi fólki mestu máli og þó svo laun séu hækkuð þá segir það ekki alla söguna. Verðbólga er ávísun á kjararýrnun þannig að kaupmáttur minnkar í samfélagi þar sem verðbólgan fær að leika lausum hala, verðlag hækkar og neytendur eru látnir borga brúsann.
Forsenda samninganna hefur verið annars vegar að halda verðbólgu í skefjum og skapa um leið samstöðu um að launaþróun hópa verði þeim í hag sem búa við lakari kjör. Allir launamenn njóta hags af stöðugu verðlagi og þess vegna er sanngjarnt að allir leggi sitt af mörkum, segir meðal annars í ávarpi nefndarinnar.