Kæra ákvörðun skipulagsráðs vegna Krákustígs

Krákustígur 1
Krákustígur 1

 

„Það er mjög súrt að vera í þessari stöðu sem til er komin vegna þess að við fengum rangar upplýsingar frá skipulagsyfirvöldum í upphafi,“ segir Perla Fanndal sem ásamt eiginmanni sínum Einari Ólafi Einarssyni eiga húsið við Krákustíg 1. Þar var um árabil rekið verkstæði. Húsið keyptu þau í fyrrasumar og hugðust breyta því í íbúðarhúsnæði fyrir einhverfan son. Sjálf búa þau í næsta húsi, við Oddeyrargötu 4 og vildu gjarnan hafa soninn nær sér.

 Þau sóttu um að stækka lóð sína þegar þau keyptu húsið við Krákustíg. Stuttu síðar sóttu eigendur við Krabbastíg 4 einnig um að stækka sína lóð og höfðu augastað á sama bletti, bílastæði ofan við Krákustígshúsið. Þau sóttu um lóðastækkun upp á 24 fermetra. 

Eftir að sú umsókn kom fram breyttist viðhorf skipulagsyfirvalda að sögn Perlu, en áður hafði henni verið tjáð að auðsótt yrði að fá umrædda stækkun. Eftir þá vendingu fór skipulagsráð af stað með grenndarkynningu vegna breytinga á deiliskipulagi fyrir Norðurbrekku. Henni lauk í janúar og bárust tvær athugasemdir. „Málið var afgreitt í síðustu viku en við höfum enn ekki fengið umsagnir frá Akureyrarbæ við okkar athugasemdum.“  

Skipulagsráð hefur nú samþykkt umrædda breytingu. Svæðið sem breytingin nær til er um 35 fermetra að stærð og kallast eftir samþykkt skipulagsráðs frá í desember síðastliðnum bæjarland. Í gögnum sem lögð voru fram á þeim fundi kemur fram að markmið breytingarinnar sé að útbúa aðgengi að lóð Krabbastígs 4.

Hún segir að þegar þau hjón keyptu húsið í Krákustíg hafði þau samkvæmt fasteignaskrá og deiliskipulagi keypt 360 fermetra lóð. Deiliskipulag var síðast auglýst árið 2015 og bárust þá engar athugasemdir frá eigendum við Krabbastíg 4 um að þau ættu tilkall í þennan skika. Með ákvörðun skipulagsráðs hafi bærinn tekið 35 fermetra af þeirra lóð og án þess að á móti komi bætur né heldur ætli bærinn sér að taka þátt í frágangi á svæðinu.

 Eykur kostnað og umstang umtalsvert

 ,, Þessi samþykkt skipulagsráðs eykur bæði kostnað fyrir okkur sem og umstang umtalsvert, við munum þurfa að kosta sjálfframkvæmdir við frágang á miklum hæðarmun sem er við húsið. Þessi ákvörðun ráðsins rýrir einnig okkar eign í endursöluþannig að segja má að við séum í pattstöðu,“ segir Perla. Þau Einar hyggjast kæra samþykkt skipulagsráðs til úrskurðarnefndar auðlinda- og umhverfismála.

„Þegar við hófum þetta ferli var okkur sagt að þetta væri almennt stæði. Nú höfum við fengið þá nýju fregnir að svæðið hafi á sínum tíma verið útbúið til að hægt væri að  bakka bílum út frá bílageymslum sem þarna eru og tilheyraMunkaþverárstræti 18,“ segir Perla. Þá bendir hún á að í greinargerð varðandi deiliskipulag sé upptalning á almennum stæðum innan reitsins og þar sé þetta umrædda stæði ekki talið upp.  „Í ljósi þeirra upplýsinga átti þetta mál aldrei að fara af stað, þ.e. umsókn okkar um breytt deiliskipulag, sem verður til þess að þessi atburðarrás fer af stað,“ segir hún.

 „Nú þegar búið er að afgreiða málið er orðið ljóst að við áttum aldrei að sækja um lóðastækkun í fyrra, því þessi skiki sem málið snýst allt um er þegar innan okkar lóðar. Eigendur hússins við Krákustíg 1 hafa alla tíð frá því húsið var byggt árið 1957 greitt af því lóðaleigu.“

 

Nýjast