KA slítur samstarfinu við Þór í handbolta
Sverre Jakobsson þjálfari Akureyrar Handboltafélags. Það félag heyrir nú líklega sögunni til. Mynd/Sævar Geir
Forráðamenn KA tilkynntu kollegum sínum hjá Þór það í gærkvöld að ákveðið hefði verið að slíta samstarfi félaganna í meistaraflokki karla í handbolta. Þetta hefur Morgunblaðið eftir heimildum.
Félögin hafa frá árinu 2006 teflt saman fram liði undir merkjum Akureyrar Handboltafélags en nú er ljóst að KA verður með lið í 1. deild á næstu leiktíð. Óljóst er hvort þar verður einnig lið með nafni Þórs eða Akureyrar Handboltafélags, en vilji Þórsara var til þess að halda samstarfinu áfram.
Ekki er heldur ljóst hvort félögin verða áfram með sameiginlegt lið í handbolta kvenna, segir á mbl.is.