KA slítur samstarfi við Þór

KA heimilið. Mynd af heimasíðu KA
KA heimilið. Mynd af heimasíðu KA

Aðalstjórn Knattspyrnufélags Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær að endurnýja ekki samninga milli KA og Þórs um sameiginlega meistaraflokka kvenna í handknattleik og knattspyrnu sem verið hafa í gildi frá árinu 2001. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu KA.

„Knattspyrnufélag Akureyrar er stórt og öflugt félag og því hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu misserum. Iðkendum hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár, ekki síst í kvennaflokkum í knattspyrnu og því telur aðalstjórn rökrétt á þessum tímapunkti að stíga skrefið til fulls og byggja upp kvennaknattspyrnu innan vébanda félagsins frá 8. flokki og upp í meistaraflokk. Aðalstjórn KA telur að þessi ákvörðun muni efla og styrkja stöðu knattpyrnu kvenna á Akureyri og gefa fleiri stúlkum tækifæri á að iðka sína íþrótt upp alla flokka.

Eftir sem áður mun félagið standa að rekstri allra flokka kvenna í handknattleik.

Undanfarin ár hafa Knattspyrnufélag Akureyrar og Íþróttafélagið Þór teflt fram sameiginlegu keppnisliði í 2. flokki kvenna og meistaraflokki kvenna í knattspyrnu undir merkjum Þór/KA. Fyrir komandi keppnistímabil styður aðalstjórn KA að fyrirkomulag verði óbreytt og kvennalið spili undir merkjum Þór/KA í 2. flokki kvenna og meistaraflokki kvenna í vetur og á komandi sumri. En frá og með næsta hausti mun KA hefja rekstur 2. flokks og meistaraflokks kvenna og tefla fram liðum í báðum flokkum sumarið 2018.

Að sama skapi mun óbreytt fyrirkomulag gilda um rekstur sameiginlegs liðs KA og Þórs undir merkjum KA/Þór í handknattleik kvenna til loka yfirstandandi keppnistímabils en frá og með keppnistímabilinu 2017-2018 mun KA tefla fram handknattleiksliðum kvenna undir merkjum félagsins,“ segir í tilkynningunni.

 

Nýjast