KA hefur leik í Pepsi-deildinni í dag
Þá er sparkvertíðin að fara í gang á Íslandi og ríkir mikil eftirvænting á Akureyri enda er KA að hefja leik í efstu deild eftir 12 ár í 1. deild. Stuðningsmenn liðsins hafa haft á orði að veturinn sé búinn að vera sérstaklega lengi að líða eða „heil meðganga“ eins og einn þeirra hafði á orði. Fyrsti leikur KA er í dag, sunnudag gegn Breiðabliki í Kópavogi.
Vikudagur sló á þráðinn til fyrirliðans, Guðmanns Þórissonar í byrjun vikunnar og spurði hann út í átökin framundan.
Guðmann var brattur og sagði mótið leggjast vel í sig. „Það er náttúrlega búið að ganga mjög vel á undibúningstímabilinu og nánast allir leikmenn heilir, vonandi tökum við það með okkur inn í sumarið,“ segir hann og bætir við: „Þetta er búinn að vera mjög fínn vetur, vel skipulagður hjá Tufa [þjálf ari KA]. Mér sýnist allir vera komnir í hörkuform. Við erum ekki búnir að vera með nein alvarleg meiðsli en auðvitað er alltaf einn og einn sem dettur út, flestir hafa þó verið heilir allan tímann.“
Erfið byrjun
Það er óhætt að fullyrða að KA menn byrji mótið á erfiðu leikjaprógrammi. Fyrsti leikurinn er gegn Breiðabliki eins og fyrr segir á Kópavogsvelli. Þá bíða Íslandsmeistarar FH-inga í Kaplakrika, fyrsti heimaleikurinn er gegn Fjölni 14. maí, silfurhafarnir úr Stjörnunni verða svo gestgjafar í 4. umferð. Guðmann gerði ekki mikið úr því að það væri erfitt að mæta svo sterkum lið- um í fyrstu leikjunum.
„Maður getur alveg horft á þetta á báða vegu. Ég held að það sé jafnvel betra að mæta svona sterkum liðum í byrjun móts, þá eru þau enn að púsla sér saman. Að mæta FH fyrri part móts á þeirra heimavelli er alltaf gott því það eru ekki mörg lið sem taka stig í Kaplakrika í ágúst þegar það er sól úti og grasteppið er fínt. Þetta eru náttúrlega allt góð lið en ég held að við eigum eftir að ná fínum úrslitum,“ segir Guðmann.
Ítarlegra viðtal við Guðmann um tímabilið framundan má nálgast á íþróttasíðum nýjasta tölublaðs Vikudags.