Jólin með augum Hildar

Hildur Eir Bolladóttir.
Hildur Eir Bolladóttir.

Greinin birtist upphaflega í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemendum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Séra Hildur Eir Bolladóttir er þekkt fyrir predikanir og pistla sína. Yfirleitt snúa þeir að hjartans málum þar sem hún ræðir opinskátt um lífið, tilveruna og tilfinningar.

Hún hefur áður gefið út bókina Hugrekki – Saga af kvíða, og eigum við von á nýrri bók frá henni. í þetta sinn verður það ljóðabók. „Ég vona að ljóðabókin komi út á næsta ári, hún fjallar að hluta til um dauðann og það myndræna ferli sem oft er svo fallegt, þótt sorgin sé sár. En bókin fjallar líka um lífið og sköpunina eins og hún birtist mér í fólki, tilfinningum og samskiptum. Þetta er bók um þá miklu list að vera manneskja með flókinn huga og fjölbreyttar tilfinningar“, segir Hildur og bætir við að allt geti nú breyst þar sem bókin sé ekki tilbúin.

Akureyringar og jólin
Hildur hefur starfað sem prestur í Akureyrarkirkju frá árinu 2014. Hún telur sig vera Akureyring í húð og hár þó hún sé einnig frá Skagafirði og Þingeyri. Það sem hún telur einkenna Akureyringa er „sterk fjölskyldumenning, hér hlúir fólk að fjölskyldu og vinum. Enn heyrir maður af stórfjölskyldum sem hittast alltaf í hádeginu á laugardögum og borða saman mjólkurgraut, það finnst mér fallegt. Akureyringar fara líka mjög vel með eigur sínar, mörgum finnst það kannski fyndið og smáborgaralegt, en mér finnst það frekar virðingarvert, svona út frá umhverfissjónarmiði og siðferðisvitundinni um skaðsemi græðginnar. Akureyringar eru sem sagt ekki gráðugir.“

Hvað einkennir þá jólin sjálf á Akureyri? Hildur segir Akureyri vera jólabæ þar sem allt verður svo gríðarlega jólalegt. „Gömlu skreytingarnar einkenna jólin á Akureyri, jólastjarnan í Gilinu sem var þegar ég var barn hangir enn og ljósin í kirkjutröppunum eru jafn stór og klunnaleg og áður, en ég elska það. Miðbærinn verður svo kósý og oft er mikill snjór. Akureyringar eru líka duglegir að sækja messu um jól, það er gefandi fyrir mig.“

Bernskujól
Hildur segist vera foreldrum sínum eilíflega þakklát. „Ég á bara góðar minningar frá mínum bernskujólum, foreldrar mínir voru mikil jólabörn og gerðu allt til að skapa okkur systkinunum falleg og kærleiksrík jól. Maturinn var góður, tónlistin fögur og pabbi las jólaguðspjallið. Ég fékk alltaf ný nærföt og náttföt. Það var mikið hlegið, spjallað og borðað.“

Hafa Jólin breyst frá þessum tímum?

„Nei jólin eru alltaf þau sömu þegar maður rýnir í kjarna þeirra. Þess vegna segi ég nei, jólin hafa ekki breyst en ég hef hins vegar breyst og svo hafa ástvinir kvatt þessa jarðvist og þannig hefur lífið breyst. En jólin eru eilíflega þau sömu, sem betur fer.“

Jólin hjá Hildi
Margir hafa ákveðnar hefðir um jólin en Hildur vill ekki festa sig of mikið í hefðum, hún segist hafa gaman af þeim en láti þær ekki stjórna sér. Þó er tvennt sem hún hefur í hávegum, „helgihaldið í kirkjunni er í raun eina hefðin sem ég hef haldið frá bernsku, nema reyndar borðum við jólagrautinn sem amma mín Hlín bjó til löngu fyrir mína tíð.“
 

Jólagrauturinn er ekki það eina sem verður á boðstólum Hildar. Hjá henni verður hamborgarahryggur með öllu tilheyrandi, „tengdafjölskylda mín, mamma mín, föðursystir mín og fleiri eru hjá okkur á aðfangadagskvöld. Þannig það verður að vera eitthvað sem allir borða, ekki hægt að vera með styrjuhrogn og froskalappir.“
 

Um jólin fá flestir eitthvað fallegt, ekki bara kerti og spil. Hana langar hinsvegar í bækur, snyrtivörur og skart. „Ég er haldin fullkominni efnishyggju þegar kemur að jólagjöfum og er alveg ósvífin í að hafa langanir í dauða hluti, þó ég sé orðin fullorðin og eigi að heita prestur“, segir hin ætíð mannlega Hildur.

„Mennskan er ekkert alltaf einhver maregnsterta“
Að lokum spyr blaðamaður Hildi hvort hún lumi ekki á einhverjum góðum jólaráðum. „Mitt helsta jólaráð er að versla jólagjafir allt árið um kring svo kostnaðurinn verði ekki of mikill í desember, það er svona efnishyggjuráðið mitt. Annars legg ég til að fólk haldi jól með alvöru tilfinningum, ef sorgin sækir að þá er gott að leyfa boðskap jólanna að umfaðma hana. Jólin eru ekki krafa um hressleika heldur heilagleika og það er allt annar hlutur. Þau eru heilög sem þýðir að þau frátekin mennskunni og mennskan er ekkert alltaf einhver marengsterta.“

-RMH

Nýjast