Jólaminningar.

Friðrik og Adda í  aðventuferð til Ítalínu  fyrir þessi jól
Friðrik og Adda í aðventuferð til Ítalínu fyrir þessi jól

Nú þegar eru tæp 15 ár síðan við fluttum frá Akureyri finnst mér við hæfi að setja niður nokkrar jólaminningar.

Það sem fyrst kemur upp í hugann er eðlilega vinnutengt, þá er það nú fyrst fallegar minningar sem lifa sterkt af aðventumarkaðsbrölti okkar fjölskyldunnar í gilinu, þegar við slógum upp aðventumarkaði með sölu á jólavarningi, bæði úr búðinni okkar og frá vinum. Þarna skapaðist rosalega jólaleg stemming, ég dáist að því hvað við lögðum á okkur og í dag velti ég stundum fyrir mér hvernig í ósköpunum við komum þessu öllu í verk. Ég man sérstaklega eftir síðasta jólamarkaðnum okkar, þegar ég var mættur í Sælkerabúðina um kl.06 á Þorláksmessu morgun, átti von á starfsfólkinu um kl.08 til að stilla upp en var þá var við að einhver hafði lagt bíl við hornið í portinu á milli okkar og KEA hússins, þar sem tjalda átti. Þá voru góð ráð dýr og ég skellti í mig nokkrum espressoum og velti fyrir mér hvernig ég átti að leysa málið. Ræddi þetta við Öddu sem kom með þá fínu lausn að hringja í Hemma löggu og athuga hvort hann gæti ekki aðstoðað okkur. Til að gera langa sögu stutta og átta sig á samtakamætti samfélagsins þá leið ekki á löngu þar til bíllinn var farinn, tjöldin risin, varðeldurinn á sínum stað og fólk farið að týnast á markaðinn og ég gat farið að gera klárt í að elda skötuna.

Í ,,smók" hjá Sigga Gumm

Partur af aðventuverkefnum mínum eftir að Friðrik V var til var að heimsækja Stefán í Bókabúð Jónasar auðvitað til að versla bækur í jólagjafir, en aðalástæðan var að Stefán hafði sankað að sér kortum og bókum um þau svæði sem ég hugðist heimsækja í janúar til að vinna og læra um matarhefðir. Á hverju ári fór ég í sjálfboðavinnu á veitingahúsum og matvælatengdum stöðum einhversstaðar í Evrópu til að bæta við kunnáttuna, enda lokuðum við staðnum fyrstu tvær vikurnar í janúar.

Ég hafði góðan bandamann í Stefáni þar sem hann lagði mikið á sig að finna bækur og kort sem nýttust mér í þetta verkefni. Eins var skildu heimsókn í Víking búðina hjá Sigga heitnum Gumm þar versluðum við túristalegar íslenskar jólagjafir til að senda systur minni og fjölskyldu í Ameríku.  Auðvitað eyddi maður talsverðum tíma í að tala vitleysu við Sigga á meðan hann reykti nokkrar, hann var hrókur alls fagnaðar á skrifstofunni sem var skipulegasta óreiða sem ég hef séð. Yfirleitt reyndi Siggi að selja manni flugelda eða annan óþarfa með mislitlum árangri. Þessir fundir er eitt af því sem ég sakna mest frá Akureyri.

Rjúpusúpa

Við hjónin fengum strax fyrsta árið okkar i rekstri hugmynd um að búa til Rjúpusúpu og bjóða gestum og gangandi uppá heitan súpubolla eftir kvöldmat á Þorláksmessu og bjóða með því gleðileg jól. Þetta gerðum við ýmist fyrir utan Víkingbúðina, Bókabúð Jónasar eða Símann í Hafnarstrætinu. Ef ég man rétt þá varð rjúpusúpan að hreindýrasúpu eitt árið þar sem bannað var að skjóta rjúpu það árið, þessi siður fylgdi okkur í höfuðborgina eftir annasamt skötuhádegi datt maður í jólagírinn þegar staffið var í óðaönn að þrífa veitingasalinn fór ég í rólegheitunum og dundaði við að gera súpu og hlusta á jólatónlist, þessi hefð lifði alveg fram að lokun veitingastaðarins 2016. Það er reyndar ágætisráð til að losna við skötulykt að sjóða rjúpusúpu.

Smákökusortirnar taldar í tugum

Auðvitað á ég æskuminningar en þær eru ekkert endilega jólalegar þar sem ég var alin upp í sértrúarsöfnuði og jólin voru alveg bönnuð og flest annað sem var skemmtilegt. Ég var ótrúlega heppin með vini og man eftir ljúfum stundum í Hríseyjargötu 11 heima hjá Sigga þau voru tiltölulega nýflutt úr sveitinni og Halldóra mamma hans ekta húsfreyja þar sem að smákökusortirnar voru taldar í tugum og hún hafði einstaka unun af því að gefa okkur að borða og hefur reyndar enn. Við Toni höfum verið vinir síðan við vorum 5 ára hann bjó í risherbergi í Norðurgötu 16 þar sem við brölluðum ýmislegt löngum stundum, Eyþór heitinn fósturpabbi hans var ekki bara sjókokkur heldur líka Færeyingur hann og Kalli Færeyingur pabbi hans elduðu oft stórskrítinn mat sem ég hafði gaman af að prófa. Þar voru jólin og aðventan tekin mjög hátíðlega.

Hundskammaðir fyrir að vera  á fylliríi svona rétt fyrir jólin

Ég á líka sérstakar minningar að koma í Laxagötu 3 til Péturs vinar míns eftir að ég var orðin unglingur enda var það mitt annað heimili þar stúderuðum við félagarnir bíómyndir og tónlist. Oft á tíðum eftir að við Adda vorum orðin par, sátum við í eldhúsinu og áttum gott spjall við Þórkötlu og Kristján heitinn, jafnvel þó Pétur væri ekki heima. Eftir að ég byrjaði í námi á Hótel Holti reyndum við að kíkja norður til tengdó yfir hátíðirnar, foreldrar mínir voru fluttir suður. Ég man sérstaklega eftir að koma norður daginn fyrir Þorláksmessu árið sem margir vínveitingastaðir opnuðu á Akureyri, Pétur og ég komum báðir úr borginni og við strákarnir hittumst allir og fundum þörf til að prófa alla þessa staði.

En tíminn var naumur þar sem ég þurfti að vera mættur aftur til vinnu annan í jólum, það var ákveðið að verja Þorláksmessu í þetta, ef ég man þetta rétt þá byrjuðum við á Kaffi Karolínu hjá Vigga Móða, komum við á KEA barnum áður en við kíktum við á Bautanum, ég vil meina að Dropinn hafi verið næsti áfangastaður, áður en við heimsóttum Pollinn hjá Alla Gísla og enduðum á Kaffi Akureyri hjá Siggu og Grétari.

Þetta er svo sem ekki frásögufærandi nema menn voru gíraðir þegar við yfirgáfum Kaffi Akureyri um miðnætti þá sjáum við ljós í bakhúsi þar sem Kalli heitinn Prent bjó á þeim tíma, en hann og Toni sungu þá saman í karlakórnum. Við ákváðum að kíkja á kallinn enda var hann annálaður áhugamaður um áfengi, hann tók á móti okkur, var ekki sáttur og hundskammaði okkur að vera á fylliríi svona rétt fyrir jólin. Sem var smá sjokk fyrir okkur en var upphaf af ákveðnum vinskap okkar Kalla enda átti hann eftir að vera „fastagestur“ á veitingastöðum sem ég vann á seinna meir á Akureyri, oft með tilheyrandi veseni. 

Mér þótti samt vænt um hann, hef oft hugsað um það eftir á hvað það hefði nú verið gott ef maður hefði skilið hvað maðurinn var að reyna að segja manni; „Vaðlaheiði, Skipalón, Skálafell…“

Aðventuminning frá Neskaupsstað

Elsta aðventuminningin mín er þó frá Neskaupsstað þar sem ég fæddist og bjó til 5 ára aldurs, hún er frekar óljós það var í aðdraganda jóla og kallinn fór út snemma dags til að kaupa flugmiða en við vorum á leiðinni til ömmu og afa í borgina um jólin. Ég, mamma og Ingunn systir eyddum deginum í að moka snjó, enda hafði snjóað gríðarlega undanfarna daga og snjórinn náði upp að þakskeggi, við bjuggum í pínulitlu húsi beint fyrir neðan Barnaskólann sem var alltaf kallað „Fjósið“ einhverra hluta vegna virkaði síminn ekki þennan dag og útvarpið datt út, kallinn kom ekki heim fyrr en um kvöldmatarleitið og mamma orðin pirruð, það var fyrst þá sem við fréttum að fyrr um daginn að fallið hafði snjóflóð á hinn enda bæjarins.

Við fórum ekki í borgina þessi jól, en fljótlega eftir áramót fórum við frá Norðfirði og um sumarið vorum við flutt til Akureyrar. Ég kom ekki aftur þangað fyrr en 25 árum síðar þegar ég var þrítugur tveggja barna faðir. En kem reglulega þangað núna og er stoltur af því að vera kallaður „Nobbari“ þó ég verði alltaf „Eyrapúki“

Nýjast