Jólahelgin mikla í Mývatnssveit er að bresta á!
Um helgina er lag að heimsækja jólasveinana okkar í Dimmuborgum, baða sig með þeim í Jarðböðunum og klára jólagjafainnkaupin á stóra jólamarkaðnum í Skjólbrekku!
Heimsækið Jólasveinana í Dimmuborgum
Jólasveinarnir í Dimmuborgum taka, eins og alltaf, á móti gestum á Hallarflötinni í Dimmuborgum. Þeir opna dyrnar að heimili sínu kl. 11 á laugardag og því vill enginn missa af!
Bræðurnir sjá til þess að það komist allir í jólaskap. Þeir syngja og tralla og hafa gaman eins og þeim einum er lagið, en gætið ykkar þeir eru nefnilega ansi stríðnir. Það er einstök upplifun fyrir bæði börn og fullorðna að heimsækja Dimmuborgir í jólabúningi. Hægt er að heimsækja Jólasveinana á milli kl. 11 og 14 á laugardeginum og á milli kl. 11 og 13 á sunnudeginum.
Jólabaðið árlega í Jarðböðunum
Ekki missa af hinu árlega jólabaði Jólasveinanna í Dimmuborgum sem verður í Jarðböðunum við Mývatn þann 7. desember kl. 16:00. Bræðurnir eru misglaðir með þessa hefð og sumir gætu hugsað sér margt annað skemmtilegra að gera rétt fyrir jól. En í bað skulu þeir og við mælum með að þú látir þig ekki vanta á þennan einstaklega skemmtilega bað-viðburð því eins og sagt er; þú hefur ekki baðað þig fyrr en þú hefur farið í bað með jólasveinum!
Stóri jólamarkaðurinn í Skjólbrekku
Til að fullkomna jólahátíðina verður stóri jólamarkaðurinn í Skjólbrekku á sínum stað og hann hefur aldrei verið fjölmennari. Í fyrsta sinn verður markaðurinn nú báða dagana, á laugardegi frá kl. 12-17 og á sunnudegi frá kl. 12-16. Fjölmargir sölubásar verða fullir af handverki, jólaskrauti, góðgæti og fjölbreyttum vörum sem henta í jólapakkann. Þetta er frábært tækifæri til að styðja við norðlenska framleiðslu og finna einstakar gjafir fyrir ástvini. Kvenfélag Mývatnssveitar verður með vöfflur og heitt kakó til sölu til að koma hita í kroppinn eftir heimsókn í Dimmuborgir.
Jólahelgin mikla er orðin órjúfanlegur hluti af aðventunni á Norðurlandi og dregur til sín fólk hvaðanæva að. Hvort sem þú vilt hitta jólasveinana, fara í Jarðböðin eða einfaldlega njóta ljúfrar stemningu á markaði, þá er eitthvað fyrir alla í þessari einstöku jólaveislu.
Miðasala fyrir heimsókn í Dimmuborgir og í jólabaðið fer fram á www.tix.is. Allar nánari upplýsingar á www.jolasveinarniridimmuborgum.is
Frá þessu segir i tilkynningu frá Mývatnsstofu