Jákvætt að fjölga möguleikum til afþreyingar í Hlíðarfjalli
Bæjarráð Akureyrar telur mjög jákvætt að afþreyingarmöguleikum verði fjölgað í Hlíðarfjalli á heilsársgrunni. Nýverið hafa tveir aðilar lýst yfir áhuga á að setja upp nýja afþreyingu á svæðinu og hefur sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs og forstöðumanni Hlíðarfjalls verið falið að útbúa drög að auglýsingu þar að lútandi.
Í minnisblaði er óskað eftir samþykki bæjarráðs fyrir því að afþreyinga á svæði kringum Hlíðafjall verði boðin út og kemur fram að áhugasamir aðilar hafi undanfarin ár komið fram með hugmyndir að nýrri afþreyingu en að ekki náð lengra.
Nýlega barst formlegt erindi þar sem óskað er eftir viðræðum um að setja upp afþreyingu í Hlíðarfjalli og einnig er í minniblaðinu nefnt að viðræður hafi staðið yfir frá 2014 við annan aðila sem einnig hafi lagt fram útfærða tillögu fyrir nokkrum misserum.
„Til að gæta jafnræðis teljum við best að boðin verði út afþreying á svæðinu,“ segir í minnisblaðinu. Gert er ráð fyrir að dómnefnd fjalli um þær tillögur sem berast. „Það er okkar mat að ný afþreying á eða í kringum svæði Hlíðarfjalls myndi gera Hlíðarfjall að enn þá sterkara afþreyingar- og útivistarsvæði. Hlíðarfjall er mest þekkt sem skíðasvæði en hefur á síðari árum einnig orðið vinsæll vettvangur fyrir fjallahjól, fjallaskíði og gönguferðir. Auk þess sem skíðalyftur hafa verið í boði á sumrin síðustu ár og hefur svæðið þróast í að vera vinsælt heilsárs afþreyingar- og útivistarsvæði.“