Íþróttafólk Akureyrar 2016
Íþróttabandalag Akureyrar og Íþróttaráð Akureyrar buðu bæjarbúm til athafnar í Hofi í dag þar sem lýst var kjöri á íþróttafólki Akureyrar.
Á samkomunni var íþróttafólk ársins hjá aðildafélögum ÍBA kynnt. Þá fengu forsvarsmenn íþróttafélagana afhenta styrki vegna Íslandsmeistara og landsliðsfólks.
Akureyrarbær veitti að venju heiðursviðurkenningar en það voru þau Áslaug Kristjánsdóttir, úr hestamannafélaginu Létti, Aðalheiður Gísladóttir, úr Íþróttafélaginu Eik og Magnús Ingólfsson, úr GA og SKA.
Samkomunni lauk á kjöri íþróttamanns Akureyrar en sú nýjung varð í kjörinu að viðurkenningin var í fyrsta sinn veitt bæði í karla- og kvennaflokki, íþróttakarl og íþróttakona ársins.
Íþróttakona ársins
Íþróttakona Akureyrar 2016 var kjörin Bryndís Rún Hansen, sundkona úr Óðni. Hún vann kjörið með nokkrum yfirburðum, hún hlaut 342 stig. Næst á eftir henni í öðru sæti varð frjálsíþróttakonan Hafdís Sigurðardóttir en hún keppir undir merkjum UFA. Hafdís hlaut 252 stig. Í þriðja sæti með 163 stig varð skíðakonan María Guðmundsdóttir, Skíðafélagi Akureyrar.
Íþróttakarl ársins
Í karlaflokki varð hlutskarpastur í kjöri íþróttamanns Akureyrar, Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður úr KFA. Þetta er annað árið í röð sem Viktor er Íþróttamaður Akureyrar.
Fast á hæla hans kom körfuboltamaðurinn hávaxni, Tryggvi Snær Hlinason úr Þór með 260 stig g í þriðja sæti varð Valþór Ingi Karlsson, blakmaður úr KA með 162 stig.
Nánar er fjallað um valið í prentútgáfu Vikudags sem kemur út á morgun.