Íslandsþari hefur sótt formlega um lóð við Húsavíkurhöfn
Íslandsþari ehf. óskaði nýverið eftir úthlutun um 10.000 m² lóðar á hafnarsvæði H2 við Húsavíkurhöfn til uppbyggingar á stórþaraverksmiðju.
Um er að ræða landfyllingu vestan við nýlega byggða slökkvistöð sveitarfélagsins. Í deiliskipulagi eru skilgreindar á þessu svæði lóðirnar Norðurgarður 7 og 9 auk þess sem bæta þyrfti við landi þar vestan við til að uppfylla plássþörf fyrirtækisins.
Úthlutun lóðarinnar er háð breytingu á deiliskipulagi. Horft er til þess að byggja allt að 6.000 m² vinnsluhúsnæði á lóðinni. Umsókn er gerð með fyrirvara um niðurstöðu úr matsskylduferli. Í umsókn kemur fram rökstuðningur umsækjanda fyrir því að svæði á H2 sé heppilegra fyrir fyrirtækið en fyrirliggjandi landfylling í Suðurfjöru. Í erindi er þess óskað að sérstakt samkomulag verði gert milli umsækjanda, sveitarfélags, hafnaryfirvalda og veitna um uppbyggingu lóðarinnar.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings lagði til við sveitarstjórn að Íslandsþara verði veitt vilyrði fyrir 10.000 m² lóð á óráðstafaðri landfyllingu á hafnarsvæði H2. Endanleg úthlutun lóðarinnar er háð því að deiliskipulagsbreyting sem heimilar byggingaráform fyrirtækisins taki gildi.
Varðandi sérstakt samkomulag milli aðila um uppbyggingu lóðarinnar vísaði skipulags- og framkvæmdaráð erindinu til byggðaráðs og Orkuveitu Húsavíkur.
Byggðarráð fjallaði um málið á síðasta fundi sínum, og fól sveitarstjóra að leiða vinnu við samninga um uppbyggingu félagsins á Húsavík.
Jákvæð viðbrögð
Magni Þór Geirsson stjórnarformaður Íslandsþara sagði í samtali við Vikublaðið að nú væri verið að bíða eftir nýju deiliskipulagi. „Það er óvíst hvað það tekur langan tíma en við höfum fengið jákvæð viðbrögð hjá sveitarstjórn,“ segir hann.
Aðspurður hvort viðræður séu hafnar við Orkuveitu Húsavíkur um afhendingu á heitu vatni, segir hann svo ekki vera en reiknaði með að sest yrði niður eftir páskafrí. „Við þurfum svo að setjast niður með þeim sem vita nákvæmlega hvað við þurfum mikla orku en hugmyndin var alltaf að það kæmi pípa yfir og fá þetta flotta heita vatn sem er þarna til staðar.“
Komið hefur fram að fyrirtækið hefur ekki ákveðið endanlega staðsetningu uppbyggingar þaraverksmiðjunnar en horft er til þriggja staða á Norðurlandi; Akureyri, Húsavík eða Dalvík.
Aðspurður segir Magni að endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir en er þó jákvæður fyrir uppbyggingu á Húsavík. „Við þurfum að fara yfir hvernig við ætlum að landa aflanum og hvað við þurfum að keyra miklu. Þetta er vinna sem við eigum eftir innanhúss en við vildum nýta augnablikið eftir góðan íbúafund og velvilja sveitarstjórnar til að fara í þessa lóðaumsókn. Svo förum við í hönnunarvinnuna á þessu öllu saman. Þetta kemur allt í ljós en við erum mjög jákvæðir fyrir því að nýta hitann á svæðinu enda þarf mikinn hita til að þurrka þarann, þannig að það er líklegt að það verði starfsemi þarna,“ segir Magni.