Í verkfalli

Dýrleif Skjóldal
Dýrleif Skjóldal

Jæja þá eru ég og starfsfélagar mínir komin í verkfall! Í fyrsta sinn er ég í verkfalli sem leikskólakennari. Ég fór í verkfall sem grunnskólakennari og hef bæði verið nemandi í framhaldsskóla þegar framhaldsskólakennarar fóru í verkföll og foreldri grunnskólabarns í verkfalli. Og svo hef ég upplifað mörg önnur verkföll. Verkföll eru ekki skemmtileg, þau eru ekki frí! Verkföll eru öllum erfið og það eru alltaf þolendur í verkföllum. Enginn fer í verkfall ,, af því bara.” 

Verkföll eru neyðarréttur sem einungis er beitt þegar ekkert gengur í samningaviðræðum og allt langlundargeð er löngu brostið. Hvað eigum við lengi að brosa og vera sæt?

Nú stendur KÍ sameinað.

Við berjumst fyrir því að samningur við okkur sem var undirritaður 2016 verði virtur af atvinnurekendum okkar. Þeirra hluti samningsins stendur óhaggaður og nú er biðlundin eftir að þau hefjist handa með sinn hluta á enda.
Í dag er 6. febrúar, Dagur leikskólans, ætlaður til að vekja athygli á starfsemi leikskólans. Leikskólinn er skólinn sem flestir fara í án þess að það sé skylda. Leikskólinn er það skólastig sem vex hraðast, þar sem sem fagmenntun er minnst, kennsluskyldan mest og flestir starfsmennirnir eru konur.

Þegiðu og vertu sæt!

Og hvað höfum við fengið fyrir að þegja og vera sæt? Virðingu? Upphefð? Hærri laun? Fleiri kennara? Færri börn? Betri starfsaðstæður? Meiri eftirlaun?  NEI, það að þegja og vera sæt hefur ekki skilað miklu af þessu. Það að þegja og vera sæt hefur aldrei skilað miklu, nokkru sinni!

Ég er KÍ, ég er leikskólakennari, ég er í verkfalli og ég hef aldrei þagað né verið sæt og ég ætla svo sannarlega ekki að byrja á því núna.

Dilla.

 

 

Nýjast