Dagskráin 29. janúar - 5. febrúar - Tbl 4
Opið bréf til samgönguráðherra Eyjólfs Ármannssonar
Samgönguráðherrann Eyjólfur Ármannsson var alsæll á dögunum þegar hann tók fyrstu skóflustunguna vegna landfyllinga nýrrar Fossvogsbrúar. Fyrirhugað er að brúin rísi í nágrenni Reykjavíkurflugvallar, einni af lífæð samfélagsins.
Það má öllum vera það ljóst að framkvæmdir við nýja Fossvogsbrú munu hafa truflandi áhrif á notkun norður-suður flugbrautarinnar, aðalflugbraut flugvallarins á meðan á framkvæmdum stendur.
Varaflugvöllurinn og almannavarnarhlutverkið
Við þekkjum öll mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sem öryggisinnviðar, það hlutverk hefur frekar aukist á tímum jarðelda og annarra náttúruhamfara, óstöðugleika í heimsmálunum og aukinnar flugumferðar til og frá landinu. Hér er einnig rétt að benda á mikla fjölgun í sjúkrafluginu innanlands.
Reykjavíkurflugvöllur er einn fjögurra alþjóðaflugvalla landsins og gegnir stóru og mikilvægu hlutverki sem varaflugvöllur fyrir flug til og frá Keflavíkurflugvelli.
Þá er almannavarnarhlutverk vallarins fyrir íslenskt samfélag mjög mikilvægt eins bent hefur verið á og eru viðbragðsaðilar og bjargir flutt frá flugvellinum á vettvang slysa og hamfara.
Getuleysi íslenskrar stjórnsýslu
Flug og flugtengd starfsemi á stóran sess í efnahag þjóðarinnar og er atvinnulíf í kringum Reykjavíkurflugvöll stór þáttur í þeim umsvifum. Það er því skylda okkar að hafa varann á þegar farið er í umfangsmiklar framkvæmdir í nágrenni flugvallarins. Það hefur verið þrengt um of að flugvellinum að undanförnu, verið vandamál að fjarlægja tré og enn frekari áform um að þrengja að flugvellinum meðal annars með fyrirhugaðri nýrri byggð í Skerjafirði. Öryggisnefnd félags íslenskra atvinnuflugmanna hefur varað mjög við þeirri framkvæmd.
Allt þetta lækkar notkunarstuðul flugvallarins sem dregur niður rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Hér er um grundvallarhagsmuni að ræða sem varðar þjóðaröryggi. Getuleysi íslenskrar stjórnsýslu er algjört. Það er með hreinum ólíkindum hvernig hefur verið staðið að málum um langt árabil í málefnum Reykjavíkurflugvallar.
Stöndum með Reykjavíkurflugvelli
Það hefði verið nær að Eyjólfur Ármannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra hefði frekar svarað kalli kjósenda sinna í Norðvesturkjördæmi og staðið með Reykjavíkurflugvelli með því að taka fyrstu skóflustunguna að nýrri samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll. Samgöngumiðstöðina gætu einkaaðilar reist á skömmum tíma en einnig væri hægt að fjármagna hana með því að byggja hagkvæmari Fossvogsbrú.
Hvar verður næsta skóflustunga?
Undirritaðir sátu með ráðherranum í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili. Það er einlæg von okkar að ráðherrann sé enn sammála okkur með að fjárheimildir þurfi að liggja fyrir stórum framkvæmdum eins og Fossvogsbrú í gegnum samgönguáætlun, að byggja eigi innviði á sem hagkvæmastan hátt og mikilvægi þess að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll. Við munum áfram berjast fyrir þeim áherslum okkar og vonum að samgöngu- og sveitastjórnaráðherra, sem einnig fer með byggðamál sem slíkur, verði með okkur í því verkefni. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir landsbyggðina, ríkissjóð, almannaöryggi og þjóðarhag. Skorum við því á ráðherrann að flýta sér hægt og vanda valið vel á næstu skóflustungum.
Greinin birtist fyrst i Morgunblaðinu