Dagskráin 5. febrúar - 12. febrúar Tbl 5
Vakniði!
Reinhard Reynisson skrifar
Á sunnudaginn rennur út athugasemdafrestur við vinnslutillögu að aðalskipulagi Norðurþings 2025-2045 en skila þarf athugasemdum í gegnum skipulagsgátt Skipulagsstofnunar. Í megin atriðum er um að ræða eðlilega uppfærslu á gildandi aðalskipulagi 2010-2030 þar sem m.a. er verið að færa ýmsar breytingar sem hafa verið gerðar á skipulaginu frá gildistöku þess inn í heildstætt aðalskipulag. Einnig er verið bregðast við nýjum viðfangsefnum, s.s. stefnumörkun í loftslagsmálum, ákvæðum í nýrri skipulagsreglugerð og landsskipulagsstefnu. En þvert á allt þetta er að finna í tillögunni áform um að byggja upp nýtt verslunar- og þjónustusvæði sunnan núverandi þéttbýlis á Húsavík. Tillögu sem gengur þvert gegn stefnumörkun í landsskipulagsstefnu, m.a. um virka ferðamáta, sögulegt samhengis í þróun byggðar og að stuðla að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða með þéttri samfelldri byggð og endurskipulagningu vannýttra svæða og eflingu nærsamfélags. Þá gengur tillagan einnig þvert á áratuga stefnumörkun í aðalskipulagi um að á miðbæjarsvæðið eigi að beina megin verslunar- og þjónustustarfsemi.
… fasteignaeigendur og rekstraraðilar á miðbæjarsvæðinu
Verði áformin að veruleika er líklegt að nýting á atvinnuhúsnæði á miðbæjarsvæðinu versni verulega frá því sem nú er þar sem það er skilgreint markmið að laða að dagvöruversluninni ýmsa smærri verslunar- og þjónustustarfsemi. Stærð markaðarins hér mun ekki á næstu áratugum bera tvo þjónustukjarna og því hætt við að það sama gerist hér og ótal dæmi eru um bæði hérlendis og erlendis. Starfsemi á miðbæjarsvæðinu dregst saman, húsnæði fer að standa autt og bæjarbúar og gestir eiga sífellt færri erindi á svæðið. Allt þekktar afleiðingar svona stefnumörkunar víða um heim.
… stjórnendur Samkaupa
Nú loks þegar félagið hyggst bæta úr afleitri aðstöðu sem það hefur boðið Húsvíkingum og nærsveitafólki upp á í dagvöruverslun um árabil veldur það vægast sagt verulegum vonbrigðum ef félagið ætlar að halda þessum áformum til streitu. Félag sem hefur gefið sig út fyrir að sýna samfélagslega ábyrgð getur bara ekki tekið þátt í því að valda þeim skaða á byggðamynstri Húsavíkur sem þessi áform óhjákvæmilega fela í sér. Arfleifð sem þá mun fela í sér áralanga slæma þjónustu sem er svo kvittað fyrir með því að taka þátt í afdrifaríku skipulagsskemmdarverki. Það er því miður ekki lengur hægt að tala um slys, svo rækilega er búið að benda skipulagsyfirvöldum sveitarfélagsins á þær afleiðingar sem áformin munu hafa í för með sér.
… íbúar á Húsavík
Náttúruleg umgjörð bæjarins þar sem Höfðinn, Skjólbrekkan, Húsavíkurfjall og Grásteinsheiðin mynda faðm um bæinn í víkinni er eitthvert hlýlegasta bæjarstæði á landinu og jafnvel þó víða væri leitað. Þessi umgjörð hefur mótað bæjarmyndina fram að þessu þar sem miðhafnarsvæðið og miðbæjarsvæðið mynda samhangandi heild. Þetta saman myndar að mínu viti Hjarta bæjarins sem okkur ber að hlúa að og efla eins og kostur er enda heilsa bæjarins í víðasta skilningi komin undir því að í honum slái kröftugt hjarta. Ef við leggjum ekkert á okkur til að styrkja þetta Hjarta bæjarins mun bærinn sem heild veikjast, verslun og þjónusta eiga erfiðar uppdráttar og bærinn í heild tapa aðdráttarafli, bæði sem búsetukostur og áhugaverður áfangastaður ferðamanna, innlendra sem erlendra.
… kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn Norðurþings
Ábyrgð ykkar er mikil að leiða samfélags- og byggðaþróun í sveitarfélaginu og þá ekki síst í megin kjarna þess. Til að standa undir þeirri ábyrgð er m.a. nauðsynlegt að afla sér þekkingar á viðfangsefnunum og móta framtíðarsýn á grunni þeirrar þekkingar. Ekki er t.d. nóg að vitna til stefnumörkunar landsskipulagsstefnu og segja að hún sé lögð til grundvallar en taka svo ákvörðun sem gengur þvert á hana og einnig yfirlýsta stefnu í aðalskipulagstillögunni sjálfri um að öll megin verslun og þjónusta sé miðsvæðis.
Að ekki sé rými eða aðrar aðstæður til að koma nútímalegri dagvöruverslun fyrir á miðbæjarsvæðinu er til marks um mikla vanþekkingu í skipulagsmálum. Hvort sem um er að ræða fyrirslátt um umferðarþunga, lóðaskort eða kostnað. Umferðarmál, þ.m.t. bílastæðamál má leysa með góðu skipulagi. Alvöru viðræður við lóðarhafa og fasteignaeigendur á miðbæjarsvæðinu þar sem unnið er útfrá skýrri framtíðarsýn um uppbyggingu svæðisins mun leysa þau mál sem þarf til að koma þessari starfsemi fyrir á svæðinu. Kostnaður við að byggja á svæðinu er ekki meiri en að brjóta nýtt land til bygginga. Í því sambandi er líklegt að málið snúi einmitt öfugt við sveitarfélaginu. Það verður að öllum líkindum miklu dýrara fyrir það að koma upp öllum innviðum, götum og veitukerfum sunnan við bæinn heldur en þær breytingar sem hugsanlega þyrfti að gera á fyrirliggjandi innviðum á miðbæjarsvæðinu.
Það sem vekur mér sérstakan ugg við að fylgjast með framgangi málsins í gegnum fundargerðið sveitarfélagsins er að þessi áform skuli samþykkt samhljóða. Það segir mér að verulega skorti á að kjörnir fulltrúar hafi raunverulega kynnt sér allar hliðar málsins. Heldur sé haldið áfram í einhvers konar meðvirkni í nafni samstöðu.
… þannig að
Ef ykkur stendur ekki á sama um hvernig bærinn þróast á næstu áratugum heldur viljið að það tækifæri sem við höfum til að byggja eitthvert áhugaverðasta miðbæjarsvæði sem um getur í íslenskum bæ þá verðið þið að gera athugasemdir við það skipulagsskemmdarverk sem hér er í uppsiglingu. Já það er sterkt il orða tekið að tala um skemmdarverk en þannig lítur málið út fyrir mér í ljósi þess að sveitaryfirvöld hafa verið upplýst um þær afleiðingar sem þessi áform munu hafa. Þau hafa fram að þessu algerlega hunsað þær upplýsingar.
Reinhard Reynisson