Rauð viðvörun
Jæja það hefur vonandi ekki farið framhjá fólki að rauð viðvörun í veðrinu tekur gildi um kl 17 í dag. Þegar þetta er skrifað rétt rúmlega kl 16 er þvi ekki að neita að loksins heyrist i vindinum blása svo við skulum reikna með öllu, taka spána alvarlega.
Lögreglan á Norðurlandi eysta hefur sent út viðvörun til okkar, Veðurstofa Íslands líka og Súlur Björgunarsveit þannig að núna er ekki rétta tækifærið til þess að vera mikið að þvælast á milli staða, núna er heima 100% best.
Boðskapur lögreglunnar er svo hér.:
,,Rauð veðurviðvörun!
Veðrið heldur áfram að hamast í okkur og nú eru komnar rauðar veðurviðvaranir í kortin í flestum landshlutum. Við hvetjum fólk til að kynna sér þetta á vef Veðurstofunnar vedur.is
Á okkar svæði hér á Norðurlandi eystra er gert ráð fyrir sunnan og suðvestan roki eða ofsaveðri. Reiknað er með að vindur geti orðið 28-33 m/s og geta staðbundnar vindhviður farið yfir 50 m/s.
Rauð viðvörun fyrir Norðurland eystra tekur gildi kl. 17:00 í dag miðvikudaginn 05.02.2025 og stendur til kl. 22:00 í kvöld. Þá tekur appelsínugul viðvörun við til kl. 05:00 í fyrramálið. Þá kemur örlítið uppihald og appelsínugul viðvörun hefst að nýju kl. 08:00 og svo rauð kl. 10:00 og fram eftir degi á morgun, þann 06.02.2025. Sjá nánar um viðmið vegna viðvarana hér: https://tinyurl.com/43svnyxn
Það getur orðið foktjón í þessu veðri og samgöngur munu mjög líklega raskast. Margir vegir eru á óvissustigi og geta lokast með stuttum fyrirvara. Við bendum á vef Vegagerðarinnar umferdin.is varðandi frekari upplýsingar eða upplýsingasímann 1777. Eins og gefur að skilja er þetta ekkert ferðaveður.
Við hvetjum fólk til að gera viðeigandi ráðstafanir, festa lausamuni, svo sem sorptunnur, eða koma í öruggt skjól, tryggja landfestar á bátum, huga að byggingarefni á framkvæmdasvæðum o.s.frv. Reikna má með að veðrinu fylgi talsverð rigning en það er talsvert mismunandi eftir landshlutum. Það er rétt að hafa þetta í huga og hreinsa frá niðurföllum.
Forráðamenn skólabarna ættu að kynna sér heimasíður og aðrar samskiptaleiðir við skólana því það er misjafnt eftir skólum hvort skólahald fellur niður eða ekki.
Björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu og aðgerðarstjórn almannavarna á Norðurlandi eystra verður mönnuð á morgun, fimmtudag.
Ef þörf er á aðstoð viðbragðsaðila, hringið þá í 112."
Berum virðingu fyrir þvi sem við munum líklega seint ná að hemja þ.e. veðrinu!