Toppurinn að spila með landsliðinu

Aníta Ósk Sævarsdóttir, nemandi í VMA og landsliðsmarkvörður U 18  í íshokkí.   Mynd  vma.is
Aníta Ósk Sævarsdóttir, nemandi í VMA og landsliðsmarkvörður U 18 í íshokkí. Mynd vma.is

Toppurinn er að spila fyrir Íslands hönd. Þetta segir Aníta Ósk Sævarsdóttir, nemandi í VMA, sem spilaði með U-18 landsliði Íslands í íshokkí í Tyrklandi 16.-23. janúar sl. Aníta er annar tveggja markmanna liðsins.

Aníta segir að þrátt fyrir að vera í landsliði Íslands hafi hún ekki æft og spilað íshokkí í mörg ár. Áður var hún í fótbolta með Þór en langaði að breyta til og spreyta sig á einhverri annarri íþróttagrein og íshokkí varð fyrir valinu. Hún segist ekki sjá eftir því, íþróttin sé skemmtileg og félagsskapurinn frábær, bæði í liðinu hennar, Skautafélagi Akureyrar, og landsliðinu.

Aníta segir að vissulega geti íshokkí stundum verið nokkuð harður leikur. Sérstaklega takist strákarnir oft hressilega á og megi segja að stundum þróist atið út í slagsmál en þannig sé það þó ekki hjá stelpunum.

Markmaður í íshokkí er bærilega vel brynjaður enda kannski eins gott því hann fær pökkinn oft í sig – stundum beint í höfuðhjálminn. Hún segist hafa fengið pökkinn í hjálminn og einu sinni hafi það orsakað heilahristing. Hún hafi þó ekki látið það slá sig út af laginu, gefið sér góðan tíma til að jafna sig og síðan haldið áfram af fullum krafti.

Aníta segir það vera afar hvetjandi að spila fyrir Íslands hönd, ekki síst þegar vel gangi. Og liðinu gekk vel í Tyrklandi í heimsmeistaramótinu deild 2B – en þar tóku þátt stúlkur í þessum styrkleika- og aldursflokki. Íslenska liðið spilaði fjóra leiki, vann Belgíu, Suður-Afríku og Mexíkó en tapaði fyrir tyrkneska liðinu.

Heimasíða VMA sagði frá

 

 

Nýjast