Geðdeild SAk safnar fyrir segulörvunartæki (TMS)

Sjúkahúsið á Akureyri   Myndir  sak.is/TBG
Sjúkahúsið á Akureyri Myndir sak.is/TBG

Á heimasíðu SAk er í dag greint frá þvi að Dag og göngudeild sjúkrahúsins sé að safna fyrir kaupum á segulörvunartæki. Tækið hefur sýnt sig sem mjög gagnalegt meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem berjast við alvarlegt þunglyndi einkum þá sem ekki hafa svarað hefðbundinni lyfja- og samtalsmeðferð að fullu. Tækið kostar samkvæmt fyrirliggjandi tilboði rétt rúmlega 9 m.kr. 

Þunglyndi er alvarlegur og þrálátur sjúkdómur sem hefur mikil áhrif á lífsgæði og heilsu fólks á heimsvísu. Hér á landi hefur algengi þunglyndis farið vaxandi, sérstaklega meðal ungs fólks, og alvarlegt þunglyndi hefur ekki eingöngu áhrif á einstaklinginn sjálfan heldur líka á fjölskyldu og samfélag. Það er því brýn þörf á öflugum meðferðarúrræðum sem geta bætt líðan og lífsgæði.  

 

(TMS) hefur sannað gildi sitt

Segulörvunarmeðferð (TMS) hefur víða um heim sannað gildi sitt sem örugg og áhrifarík meðferð gegn meðferðarþráu þunglyndi. Fjöldi rannsókna sýnir að um 60% sjúklinga sem fá TMS ná verulegum bata, þar af um 30% fullum bata. Aukaverkanir eru fáar og vara stutt þ.e. á meðan meðferð er gefin. Á Íslandi hefur TMS-meðferð þegar verið tekinn í notkun hjá Heilaörvunarmiðstöð Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, með árangri á pari við erlendar rannsóknir. Hins vegar hefur reynst erfitt fyrir einstaklinga á landsbyggðinni að nýta sér meðferðina vegna langrar dvalar fjarri heimahögum.

Búnaðurinn er ekki plássfrekur 

 Aðstöðumunur eftir búsetu

Þrátt fyrir að meðferð á Heilaörvunarmiðstöð í Reykjavík (HÖM) standi öllum landsmönnum til boða höfðu einungis tveir sjúklingar frá landsbyggðinni notið slíkrar meðferðar sl vor, með meðfylgjandi kostnaði fyrir þá og Sjúkratryggingar Íslands, enda þurftu þeir að dvelja á sjúkrahóteli þær 6 vikur sem meðferðin stóð yfir. Starfsmenn Geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri hafa reynt að vísa sjúklingum til HÖM en hingað til hefur enginn okkar sjúklinga getað nýtt sér þessa meðferð f.o.f. þar sem þeir hafa ekki getað dvalið fjarri heimahögum þær 6 vikur sem meðferðin stendur.

Með kaupum á TMS-tæki getum við boðið upp á þessa gagnlegu meðferð í heimahéraði fyrir Norðurland. Starfsmenn okkar hafa þegar öðlast viðeigandi þekkingu og sérhæfingu með því að sækja námskeið sem styrkt var af Geðverndarfélagi Akureyrar í gegnum The Academy of Brain Stimulation við Maastricht University í Hollandi, auk þess sem góður samstarfsvilji er fyrir hendi við Heilaörvunarmiðstöðina varðandi fræðslu og ráðgjöf.
 

Mikilvægur ávinningur

Ávinningur af því að fá tækið er talsverður en þannig getum við komið til móts við brýna þörf sjúklinga á Norðurlandi sem þjást af meðferðarþráu þunglyndi, minnkað kostnað og óþægindi sem fylgja langri fjarveru og ferðum til höfuðborgarsvæðisins og stutt við áframhaldandi þróun og eflingu geðheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Kaup á TMS-tækinu mun skipta sköpum fyrir einstaklinga sem glíma við alvarlegt þunglyndi og fjölskyldur þeirra, auk þess að auka möguleika Geðdeildar SAk til að veita fjölbreyttari og skilvirkari þjónustu.

Nánari upplýsingar veitir Brynja Vignisdóttir, bv0917@sak.is
Bankaupplýsingar: Minningasjóður SAk:
Kennitala: 490514-0230 / Reikningsnúmer: 0565-26-654321
Tilvísun á millifærslu „Göngudeild geðdeildar“

 

Segir í tilkynningu frá Dag-og göngudeild SAk

Nýjast