Í upphafi árs
Hjálmar Bogi Hafliðason skrifar
Starf í sveitarstjórn byggir á samvinnu. Stjórnmál byggjast upp á mismunandi skoðunum og afstöðu. Þess vegna verður að vera svigrúm fyrir ágreining og vilji til að byggja upp gagnkvæmt traust. Það er mikilvægt að vanda sig. Verkefnin eru ærin, vinnubrögðin til að bæta þau og væntingarnar eftir því. Sveitarstjórn er opinbert stjórnvald. Meginhlutverk sveitarstjórnarfulltrúa er ákvörðunartaka.
Verkefnin
Til að standa undir velferð þarf að byggja upp, auka tekjur samfélagsins og iðka ráðdeild í rekstri með opinbera fjármuni. Það eru mikil tækifæri í áframhaldandi uppbyggingu á Bakka við Húsavík. Það felur meðal annars í sér áframvinnslu eins og rafeldsneytisframleiðslu. Ætlum við að byggja upp samfélagið þarf frekari orkuöflun. Uppbygging fiskeldis í Kelduhverfi, Öxarfirði og á Kópaskeri mun skila auknum tekjum, skapa störf og treysta inniviði. Ferðaþjónustan mun ná fyrri styrk og þarf að hlúa að öllum þeim fjölda ferðafólks sem hingað kemur. Það er á ábyrgð ríkis, sveitarfélaga og ekki síst fyrirtækjanna sjálfra sem stunda þann rekstur. Við höfum sett það sem okkar helsta markmið að keppast við uppbyggingu Heimskautsgerðisins á Raufarhöfn. Hugverkaiðnaður hverskonar á fjölbreytta möguleika á svæðinu þar sem við veitum athygli því sem fyrir er og nýsköpun á sama tíma. Slíkt munt til lengri tíma skapa ný störf í breyttri veröld.
Allt þetta kallar á húsnæði. Þak yfir höfuðið fyrir íbúa. Þak fyrir ný atvinnutækifæri og þau sem fyrir eru. Samhliða þessu þurfum við að hlúa sérstaklega að hagsmunum barna og ungmenna og fjölbreyttari menningu. Við viljum búa í samfélagi þar sem börnunum og ungmennum líður vel og þau sjá framtíð fyrir sjálfan sig. Gefum menningu hvers konar aukin gaum og fjármagn til að líma saman samfélagið.
Vinnubrögðin
Til að byggja upp þurfum við að tala saman og miðla upplýsingum af ábyrgð. Það þýðir ekki að allir séu sömu skoðunar heldur að rýna til gagns, deila hugmyndum og sýn til að komast á sameiginlegan stað. Við settum okkur það markmið að dreifa betur og miðla upplýsingum. Það gengur vel. Enda er upplýstur borgari lykilþáttur í þeirri rýni sem við eigum að tileinka okkur við uppbyggingu samfélags. Sömuleiðis vinnum við að því að bæta stjórnsýsluna. Við erum í endurskoðunarferli á skipuriti sveitarfélagsins með það að markmiði að einfalda, bæta og skýra stjórnsýsluna.
Kjörnir fulltrúar fjalla um, meðhöndla og vinna með sameiginlega sjóði og ákvarðanir. Þess vegna er gagnrýni á okkar störf þýðingarmikil. Við þurfum að opna stjórnsýsluna meira og gera hana aðgengilegri. Þess vegna vinnum við að því að senda fundi sveitarstjórnar út á skjánum og gera fundargerðir upplýsandi. Vinna stendur yfir við gerð nýrrar heimasíðu sem tekur m.a. til rafrænnar þjónustu og upplýsingamiðlunar um þjónustu sem við veitum. Samhliða því að huga að markaðs- og kynningarmálum.
Væntingarnar
Samhliða auknum tekjum eykst krafan um enn meira fé í alla málaflokka. Um leið þurfum við að forgangsraða og sýna ráðdeild í rekstri. Allt snýst þetta um að skapa meiri hagsæld. Við þurfum að líta inn á við til að eflast, þroskast og dafna. Við viljum fjölga fólki og fyrirtækjum, bjóða þau velkomin sem hingað vilja koma. Það er líklegast að fjölgi mest íbúum af erlendum uppruna. Það kallar á átak í hugsun og menningu. Þannig stuðlum við að fjölmenningu og styrkjum okkar sem fyrir er sem leiðir til fjölbreytni. Einsleitni er stöðnun. Reynsla er góð. Hefðir og fastheldni þarf að haldast í hendur við að hafa sýn á framtíðina sem er í stöðugri mótun. Sem betur fer.
Gerum betur, rýnum til gagns og stuðlum að fjölbreyttara samfélagi fyrir okkur öll.
Hjálmar Bogi Hafliðason
Forseti sveitarstjórnar Norðurþings
Oddviti Framsóknar