Í þögninni þrífst ofbeldi
- Þórveig Unnar Traustadóttir skrifar
Þegar ég var í grunnskóla fengum við kynningu frá lögreglunni og slökkviliðinu. Í þeim kynningum var mikið talað um neyðarlínuna og símtöl þangað. Alveg þar til ég sjálf byrjaði í lögreglunni sat það fast í mér að það ætti enginn að hringja í neyðarlínuna nema það væri fólk sem væri bókstaflega í lífshættu í kringum þig. Það mætti alls ekki hringja þangað inn að óþörfu og trufla starfsfólkið. Neyðarlínan væri fyrir neyðarsímtöl.
En til að fá aðstoð lögreglu þarf að byrja á því að hringja í neyðarlínuna sem síðan gefur þér samband við Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra. En hvað ef það er enginn í lífshættu í kringum þig? Hvað ef þú vilt tilkynna einhverja vafasama hegðun en það situr svo fast í þér að trufla alls ekki starfsfólk neyðarlínunnar að þú veist ekkert hvert þú átt að snúa þér? Sem starfandi lögreglukona hef ég oft fengið þessa spurningu frá fólki: Hvert á ég að hringja? Svarið er alltaf: í neyðarlínuna. Í versta falli segir starfsfólkið þar að þetta erindi eigi ekki heima hjá þeim. Og oftast geta þau meira að segja leiðbeint þér annað.
Mikilvægt að tilkynna
Það er mjög mikilvægt að hringja í neyðarlínuna og lögregluna ef grunur vaknar um að eitthvað misjafnt eigi sér stað. Til að við getum hjálpað þurfum við að vita ef fólki vantar aðstoð. Hversu oft hefur þú sagt: Af hverju var ekki löngu búið að grípa inn í? Einfaldasta svarið er: af því við vissum ekki að þess þyrfti. Þess vegna er svo mikilvægt að tilkynna. Svo við fáum vitneskjuna. Svo hægt sé að rannsaka. Ég veit ekki um neitt lögreglufólk sem vill ekki frekar fá of margar tilkynningar en of fáar.
Þurfum að hafa hátt!
Í dag, 25. nóvember, er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Kynbundið ofbeldi er gríðarlega stórt samfélagslegt vandamál í öllum heiminum. Vandamál sem hægt er að laga með aukinni fræðslu, opnari umræðu og lagabreytingum. Við megum ekki vera hrædd við að tjá okkur um kynbundið ofbeldi. Við verðum að ræða saman, hjálpa hvert öðru að fræðast og breyta viðhorfum, benda hvert öðru á þegar við gerum mistök. Við þurfum að breyta umræðunni allri. Við þurfum að hafa hátt!
Kynbundið ofbeldi á netinu
Í ár er sérstaklega verið að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi á netinu. Stafrænt kynbundið ofbeldi getur verið allt frá einelti til hefndarkláms. Með aukinni tækni hefur stafrænt kynferðisofbeldi aukist mjög undanfarin ár og beinist það helst að ungu fólki. Börn allt niður í 11 ára gömul hafa verið að fá beiðnir um að senda kynferðislegar myndir af sér. Oft eru þetta unglingsstúlkur sem eru beðnar um myndir af sér og oftast eru það fullorðnir karlmenn sem biðja um myndirnar. En málið er að þú ert barn þangað til þú nærð 18 ára aldri. Það þýðir að ef kynferðisleg mynd af 15 ára gamalli stúlku er í dreifingu þá er það barnaklám. Ef svoleiðis mynd er til á þínu snjalltæki þá ert þú með barnaklám í þinni vörslu. Alveg sama þó 15 ára gamla stúlkan hafi sjálf tekið þessa mynd. Barnaklám er ólöglegt og varðar fangelsi allt að 2 árum samkvæmt almennum hegningarlögum.
Ef einstaklingi er send mynd af kynferðislegum toga þýðir það ekki að það sé í lagi að senda myndina áfram. Það þarf alltaf að fá samþykki bæði fyrir því að senda mynd og líka fyrir því að fá mynd senda. Samþykki fæst með skýru JÁ-i! Það þýðir samt ekki að það sé í lagi að þrýsta á aðra manneskju að senda mynd af kynferðislegum toga. Það er ekki samþykki, það er þvingun.
Hefndarklám hefur aukist
Svokallað hefndarklám hefur einnig aukist mjög með aukinni tækni. Hefndarklám er þegar mynd eða myndbandi er dreift án samþykkis þeirra sem myndefnið sýnir. Það var ekki fyrr en snemma á þessu ári sem frumvarp um kynferðislega friðhelgi var samþykkt á Alþingi. Var þá bætt í almennu hegningarlögin grein 199 a. sem segir að sá sem dreifir í heimildaleysi kynferðislegri mynd eða mynd sem felur í sér nekt geti átt yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi sé brotið stórfellt. Það er svo ákæruvaldsins og dómstólanna að ákveða hvað telst sem stórfellt brot. Þá er einnig óheimilt að hóta að birta eða dreifa kynferðislegum myndum. Þetta er stór sigur fyrir þolendur stafræns kynferðisofbeldis og verður áhugavert að fylgjast með framvindu þessara mála í dómskerfinu. Það er ekkert leyndarmál að dómskerfið hefur ekki verið hliðhollt þolendum kynferðisofbeldis en það breytist ekki ef við gerum ekkert. Ef við bendum ekki á það, ef við segjum ekki frá, ef við tilkynnum ekki.
Rjúfum þögnina
Ég vil því biðja ykkur að tilkynna oftar. Ekki hugsa að hin manneskjan muni líklegast gera það. Eða að þetta sé svo smávægilegt að það tekur því ekki að trufla starfsfólk neyðarlínunnar og lögregluna með svona smámáli. Leyfið okkur að dæma um það. Þið vitið nefnilega ekki hvað annað hefur gengið á. Hvort til séu aðrar tilkynningar og að þín tilkynning hafi akkúrat verið það sem þurfti til að hægt væri að gera eitthvað í málinu.
Í þögninni þrífst ofbeldi, því með því að tilkynna ekki og segja ekki frá, gerum við ofbeldisfólki það kleift að halda áfram sinni hegðun og brjóta enn meir á fólki. Með því að gefa þolendum ofbeldis og fólki sem verður vitni að því meira svigrúm til að tilkynna, getum við í sameiningu rofið þögnina.
Þórveig Unnar Traustadóttir