Hvetja til byggingar bílakjallara til að bæta landnýtingu
Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær með 8 atkvæðum tillögu skipulagsráðs að breytingu á gjaldskrá gatnagerðargjalda og vísar málinu til seinni umræðu í bæjarstjórn.
Skipulagsráð lagði til við bæjarráð að breyting yrði gerð á gjaldskrá gatnagerðargjalda þannig að gjald fyrir fjölbýlishús verði það sama og fyrir önnur íbúðarhús eða 15% í stað 12,5%. Þá er einnig lagt til að á móti lækki gjald fyrir bílakjallara fjölbýlishúsa úr 5,0% í 3,75%. Forsendur þessara breytinga eru þær að uppbygging og rekstur gatnakerfis færist nær því að standa undir sér. Á sama tíma er gert ráð fyrir lækkun á gjaldi fyrir bílakjallara til að hvetja til byggingar þeirra og betri landnýtingar.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti þessa tillögu skipulagsráðs að breytingu á gjaldskrá gatnagerðargjalda þannig að gjald fyrir fjölbýlishús verði það sama og fyrir önnur íbúðarhús eða 15% í stað 12,5%. Þá er einnig samþykkt að á móti lækki gjald fyrir bílakjallara fjölbýlishúsa úr 5,0% í 3,75%.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson B-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Í ljósi þess að um er að ræða talsverða hækkun gatnagerðargjalda fyrir fjölbýlishús á einu bretti hefði þurft að undirbyggja málið betur. Markmiðin með breytingunum hafa ekki verið rökstudd að fullu, né hafa áhrif gjaldskrárbreytinga verið greind nægjanlega vel að okkar mati. Þá gerum við athugasemd við að einungis var tekinn saman samanburður á gatnagerðargjöldum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu en ekki nágrannasveitarfélög okkar. Því er erfitt að svo stöddu að gera sér grein fyrir því hvernig markaðurinn kemur til með að bregðast við hækkunum og hver þá áhrifin verða á þróun húsnæðisverðs. Það er full ástæða til þess að vanda sig meðan enn ríkir mikil óvissa í efnahagsmálum og mikilvægt að vinna ekki gegn markmiði Akureyrarbæjar að hér séu byggðar hagkvæmari íbúðir.