Hvernig velja framboðin á lista í Norðausturkjördæmi?
Flest framboðin í Norðausturkjördæmi munu stilla upp á lista sína. Undantekningin er Sjálfstæðisflokkurinn sem velur fimm efstu á kjördæmisþingi og Píratar sem halda prófkjör. Vinsælt er að koma saman í Mývatnssveit til að velja listana.
Samkvæmt lögum skal framboðslistum og fylgigöngum, þar með talið undirskriftum meðmælenda, skilað til landskjörstjórnar í síðasta lagi 31. október. Í Norðausturkjördæmi þarf ríflega 300 undirskriftir. Flestir safna fleiri undirskriftum þar sem undirskriftir einstaklinga, sem hafa skrifað undir á fleiri en einum stað, eru alls staðar dæmdar ógildar. Listarnir verða að innihalda minnst tíu nöfn en búast má við að flestir leggi fram 20 manna lista.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð
Kjördæmisráð VG kom saman á fjarfundi á mánudagskvöld og samþykkti að stilla upp á listann. Uppstillingarnefnd hefur hafið störf og hefur tíma til 26. október. Þann dag verður haldið kjördæmisþing á Laugum í Reykjadal þar sem listinn verður staðfestur.
Píratar
Píratar standa fyrir prófkjörum í öllum kjördæmum. Opnað var fyrir framboð á mánudag og hafa frambjóðendur helgina til að kynna sig. Kosningarnar hefjast klukkan 16:00 á sunnudag og standa í tvo sólarhringa. Frambjóðendur hafa 24 tíma til að staðfesta að þeir taki sæti á lista eftir að niðurstöður eru birtar. Prófkjörið er bindandi fyrir helming þingsæta en kjörstjórn raðar í hin.
Sjálfstæðisflokkurinn
Hjá Sjálfstæðisflokknum liggur fyrir tillaga um tvöfalt kjördæmisþing, þar sem bæði aðal og varamenn flokksfélaga hafa atkvæðisrétt. Hún verður tekin fyrir á hefðbundnu kjördæmisþingi í Mývatnssveit klukkan 11 á sunnudag. Verði hún samþykkt hefst tvöfalda þingið á hádegi. Kosið verður um efstu fimm sætin, eitt í einu og úrslit birt strax. Kjörnefnd gerir síðan tillögu um önnur sæti. Gert er ráð fyrir listinn allur verði borinn upp til samþykktar áður en þinginu verður slitið.
Samfylkingin
Samfylkingin hefur boðað til kjördæmisráðsfundar í Mývatnssveit á laugardag. Fyrir fundinum liggur tillaga um að stillt verði upp á listann. Unnar Jónsson, formaður kjördæmisráðs, segir þá leið farna í ljósi þess hversu knappur tíminn er. Framboðslistarnir eiga að vera tilbúnir 31. október, mánuði fyrir kosningar. Á fundinum yrði uppstillingarnefnd valin. Tillaga hennar yrði síðan lögð fyrir annan fund kjördæmisráðs.
Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn hefur boðað auka kjördæmisþing á laugardag. Það verður haldið rafrænt. Hlutverk þess er að samþykkja að stillt verði upp á listann. Kjörnefnd farin af stað og hefur kallað eftir frambjóðendum. Tillaga hennar verður síðan borin upp á kjördæmisþingi í Mývatnssveit þann 26. október. Búið var að ákveða kjördæmisþingið áður en boðað var til kosninga.
Miðflokkurinn
Samkvæmt lögum Miðflokksins tilnefna kjördæmisfélög tvo fulltrúa í uppstillingarnefnd sem vinnur með þriggja manna uppstillingarnefnd flokksins á landsvísu. Framboðslistana á síðan að bera upp á félagsfundi kjördæmafélags til staðfestingar. Ekki fengust nánari upplýsingar um tímasetningu slíks fundar þegar eftir því var leitað.
Flokkur fólksins
Stillt er upp á lista Flokk fólksins í kjördæminu. Uppstillingarnefnd er skipuð af kjördæmisráði. Hún á að bera tillögu sína um framboðslita undir kjördæmaráð og stjórn til samþykktar.
Viðreisn
Landshlutaráð Viðreisnar fundar í kvöld en samkvæmt reglum flokksins skal það ákveða hvort prófkjör fari fram. Tillaga liggur hins vegar fyrir um uppstillingu í ljósi tímans og stefnt á að uppstillingarnefnd verði mótuð á fundinum. Gert er ráð fyrir að nefndin skili af sér eftir rúma viku. Landshlutaráðið staðfestir síðan listann. Heiða Ingimarsdóttir, formaður landshlutaráðsins, segist hafa orðið vör við talsverðan áhuga fólks á að starfa með framboðinu síðustu daga.
Nýtt framboð Arnars Þórs Jónssonar
Arnar Þór Jónsson hefur boðað framboð nýs flokks. Hann sagði í samtali við Austurfrétt í morgun að unnið væri að því að manna listann. Uppstillingarnefnd haldi utan um vinnuna. Stefnt er að því að kynna efstu frambjóðendur í Norðausturkjördæmi á laugardag. Hann segir hug í framboðinu sem þurfi að komast í gegnum „eldvegg stutts framboðsfrests og undirskrifta.“
Svör bárust ekki frá Sósíalistaflokki Íslands við vinnslu fréttarinnar.