Hvað er að vera læs?

Fyrir áhugasöm þá munu Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) standa fyrir læsisráðstefnu sem er gott innlegg inn í þann fjölda hugrenninga sem vakna þegar læsi ber á góma.

„Öll ættu að hafa gagn og gaman af ráðstefnunni með því að hlusta og taka þátt þó svo að ráðstefnan sé sett upp fyrir kennara og stjórnendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum,“ segir Gunnar Gíslason, forstöðumaður MSHA, aðspurður um fyrir hverja ráðstefnan er. „Læsi er yfirgripsmikið hugtak og á ráðstefnunni verður fjallað um læsi í víðum skilningi og hvernig ber að huga að öllum þáttum læsis í kennslu, svo sem lesskilningi, ritun, munnlegri og skriflegri tjáningu og miðlun. MSHA og MMS hafa staðið fyrir ráðstefnunni annað hvert ár núna til fjölda ára og alltaf mikill metnaður lagður í undirbúning sem sýnir sig í góðri mætingu,“ bætir Gunnar við.

Sannarlega má segja að mikið sé lagt í ráðstefnuna og dagskráin er til fyrirmyndar. Aðalfyrirlesarar verða Bragi Valdimar Skúlason fjölmiðlamaður, orðarýnir og orðasmiður og Guðmundur Engilbertsson deildarforseti við kennaradeild HA sem mun fjalla um læsi á stigi djúp- og yfirfærslunáms á efri skólastigum.

„Við viljum nýta ráðstefnuna til að vekja athygli á nýjustu rannsóknum í læsi, athyglisverðum starfsháttum í skólunum sem skila árangri“ segir Gunnar spurður um væntingar. „Ég tel líka afar mikilvægt að efla málefnalega umræðu um læsi almennt og þetta er okkar framlag til þess. Einnig höfum við til margra ára haldið námstefnu um Byrjendalæsi á föstudeginum fyrir læsisráðstefnuna. Þar koma saman grunnskólakennarar á yngsta stigi af öllu landinu, fræðast um það nýjasta í læsisfræðum í byrjendakennslu, bera saman bækur sínar og fá að heyra af athyglisverðu starfi í einstökum skólum. Þessi vettvangur eykur samtal og byggir undir að skoðanir séu byggðar á fræðum og góðum fyrirmyndum,“ bætir Gunnar við.

Námstefnan í Byrjendalæsi hefur ávallt verið vel sótt og hafa um 150 kennarar sótt hana árlega hingað til. Flest sitja svo einnig ráðstefnuna daginn eftir og hana hafa sótt um 220 – 260 gestir. Þetta árið fer námsstefnan fram föstudaginn 13. september og ráðstefnan daginn eftir. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðum MSHA og HA.

Gunnar Gíslason, forstöðumaður MSHA

Nýjast